Ólafur í kröppum dansi á BBC

Ólafur Ragnar Grímsson les yfirlýsingu sína um að hann ætlaði ...
Ólafur Ragnar Grímsson les yfirlýsingu sína um að hann ætlaði ekki að staðfesta Icesave-lögin. Ragnar Axelsson

„Ísland mun standa við skuldbindingar sínar,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands í viðtali við BBC í kvöld. „Það eina sem ég hef gert er að gefa þjóðinni tækifæri til að hafa lokaorðið í þjóðaratkvæðagreiðslu, sem er í samræmi við grundvallaratriði lýðræðisins.“


Ólafur Ragnar svaraði spurningum fréttamannsins Jeremy Paxman í breska fréttaskýringaþættinum Newsnight í breska ríkissjónvarpinu. Paxman er þekktur fyrir að láta viðmælendur ekki komast upp með nein undanbrögð.


„Afleiðingar ákvörðunar þinnar eru að sum alþjóðleg matsfyrirtæki hafa lækkað lánshæfismat Íslands í ruslflokk og búið er að stöðva lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og stöðva hugsanlega inngöngu Íslands í Evrópusambandið um ótiltekinn tíma,“ fullyrti Paxman.


„Nei, nei. Þarna fullyrðir þú of mikið. Í fyrsta lagi hefur þessi breyting á lánshæfismati enga raunverulega þýðingu. Forysta AGS hefur tekið skýrt fram að það séu engin tengsl milli þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem nú er framundan og hinnar frábæru samvinnu okkar við AGS. Viðræður við ESB munu eiga sér stað á komandi árum.


Þú verður að átta þig á að við erum lýðræðisríki þar sem borgararnir hafa tekið virkan þátt áratugum saman. Kosningaþátta er yfir 90% og ég trúi því að eftir þá miklu erfiðleika sem við höfum upplifað á Íslandi með hruni bankakerfisins og alþjóðlegu fjármálakreppunni verði þjóðarsátt og endurreisn efnahagslífsins sterkari með því að leyfa kjósandanum að segja skoðun sína.“


„Ályktunin sem maður dregur af þessu öllu saman er. Ekki treysta Íslendingum!“ sagði Paxman.


„Þú verður að hafa trú á lýðræðislegu ferli. Í Frakklandi, Írlandi og mörgum ríkjum Evrópusambandsins er þjóðaratkvæðagreiðsla hluti lýðræðislegrar hefðar. Ég veit að í Bretlandi hafið þið ekki reynslu af því að treysta kjósandanum í þjóðaratkvæðagreiðslu, en alls staðar í Evrópu eru þjóðir sem treysta fólki til að greiða atkvæði í þjóðaratkvæðagreiðslu og það sem ég gerði var einfaldlega að fylgja þeirri hefð.“


„En hvað um þann hluta lýðræðisins sem felst í því að fólk kýs sér ríkisstjórn og ríkisstjórnir taka ákvarðanir í góðri trú og að þær eiga ekki að vera settar til hliðar af einhverjum forseta,“ sagði Paxman.

„Munurinn á íslensku og bresku stjórnarskránni er að í Bretlandi er það þingið sem fer með æðsta valdið en á Íslandi er það vilji fólksins sem ræður ...
Ég hélt að sú nýja Evrópa sem við erum að tala um snérist ekki bara um endurbætur á markaðshagkerfinu heldur líka um lýðræði og vilja fólksins.“


„Má ég spyrja þig einfaldrar spurningar? Munu Bretar og Hollendingar fá peningana sína aftur?“


„Eins og ég sagði í upphafi er það grundvallaratriði í lögunum sem eru í gildi og hafa þegar verið undirrituð að það er skýrt að Ísland mun standa við skuldbindingar sínar. Allir stjórnmálaflokkar á Íslandi eru þeirrar skoðunar að við eigum að standa við skuldbindingar okkar,“ sagði Ólafur Ragnar.

Viðtalið við Ólaf Ragnar á YouTube

mbl.is

Bloggað um fréttina