Lög um þjóðaratkvæði samþykkt

Lög um þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laga um ríkisábyrgð vegna Icesave voru samþykkt á Alþingi í kvöld. Tillagan var samþykkt samhljóða með atkvæðum 49 þingmanna. Að svo búnu var samþykkt frestun Alþingis til 29. þessa mánaðar.

Þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram vegna þess að forseti Íslands synjaði lögunum sem Alþingi samþykkti fyrir áramót staðfestingar.

Frumvarpið fór hraðferð í gegn um þingið í kvöld, í samkomulagi stjórnar og stjórnarandstöðu. Eftir nokkrar umræður við aðra umræðu um kvöldmatarleytið var samþykkt að vísa því til þriðju umræðu.

Þriðja umræða fór fram strax að lokinni annarri umræðu og þurfti að leita afbrigða frá þingsköpum fyrir þeirri málsmeðferð. 

Þriðja grein laganna hljóðar svo:

„Á kjörseðli skal koma fram eftirfarandi: „Lög nr. 1/2010 kveða á um breytingu á lögum nr. 96/2009, um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf. Alþingi samþykkti lög nr. 1/2010 en forseti synjaði þeim staðfestingar. Eiga lög nr. 1/2010 að halda gildi?“
    Á kjörseðli skulu gefnir tveir möguleikar á svari, þ.e. „Já, þau eiga að halda gildi“ og „Nei, þau eiga að falla úr gildi“. “

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, formaður allsherjarnefndar Alþingis, vakti athygli á því við atkvæðagreiðsluna að þetta væri í fyrsta skipti í sögunni sem Alþingi samþykkti lög um þjóðaratkvæðagreiðslu. Fagnaði hún því að pólitísk samstaða væri um málið.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, sagði leiðinlegt hvað texti frumvarpsins væri ömurlegur, hann hefði mátt vera á mannamáli.

Fundum þingsins var þá frestað. Það kemur næst saman föstudaginn 29. janúar.

Alþingi samþykkti lög um þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laganna um Icesave.
Alþingi samþykkti lög um þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi laganna um Icesave. mbl.is / Heiddi
mbl.is