Trúnaðarbrestur í Icesave-samningum?

Björn Valur Gíslason, lengst til vinstri, ásamt fleiri þingmönnum á ...
Björn Valur Gíslason, lengst til vinstri, ásamt fleiri þingmönnum á Alþingi.

Björn Valur Gíslason, þingmaður Vinstri grænna, segir að svo virðist sem trúnaðarbrestur sé kominn upp á milli stjórnandstæðinga og samninganefndarinnar um lausn Icesave-deilunnar.

„Í gær virðist það hafa gerst að andstæðingarnir hafi komið í veg fyrir að samninganefndin (ath. ekki stjórnarmeirihlutinn) sendi svar til Breta og Hollendinga við ákveðnum hugmyndum um lausn málsins, sem nefndin var einhuga um að gera. Sennilegast er að stjórnarandstaðan hafi gert sér grein fyrir því að samninganefndin var við það að ná lendingu í málinu og því ákveðið að stöðva málið með það að markmiði að koma í veg fyrir að næðist að ganga frá samningi fyrir helgi og þjóðaratkvæðagreiðslan yrði þar með slegin af," segir Björn Valur á heimasíðu sinni.

Hann segir, að samninganefndin, undir forystu Lee Buchheit og með Lárus Blöndal innanborðs sem sérlegan fulltrúa stjórnarandstæðinga, virðist því sem stendur ekki hafa umboð andstæðinga til að leysa málið eins og nefndin telji að best verði gert.

„Andstæðingar þess að samið verði um málið, með formann Framsóknarflokksins í fararbroddi, virðist þar með vera að einangrast í viðleitni sinni til að koma í veg fyrir samkomulag í deilunni. Það mun verða að skýrast strax fyrripartinn í dag hvort stjórnarandstæðingar veita þeim Buchheit og Blöndal áframhaldandi umboð eða hvort nefndin gefst upp á samstarfinu við andstæðingana og kemur heim án samnings með tilheyrandi afleiðingum," segir Björn Valur.

mbl.is