Kosningarnar blasa við

Kjörkassi innsiglaður að loknum kjörfundi.
Kjörkassi innsiglaður að loknum kjörfundi. mbl.is/Sigurður Aðalsteinsson

Viðræðunefnd Íslands í Icesave-samningum fékk boð um það frá Bretum og Hollendingum í Lundúnum eftir hádegi í gær að koma til fundar við samninganefndir þeirra. Fundurinn hófst kl. 15 að íslenskum tíma og honum var lokið kl. rúmlega 18 án þess að nokkrum markverðum árangri væri náð.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins glæddust vonir meðal íslensku sendinefndarinnar í fyrrakvöld um að nú þokaðist í samkomulagsátt þar sem erindreki úr bresku sendinefndinni hafði borið íslensku viðræðunefndinni þau munnlegu skilaboð að Bretar og Hollendingar væru reiðubúnir til þess að koma verulega til móts við kröfur íslensku samninganefndarinnar um vaxtakjörin og lengd vaxtaleysistímabilsins.

Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins var þetta svo allt borið til baka af hálfu Breta og Hollendinga í gær, fyrst í óformlegum þreifingum á milli aðila og síðan á hinum formlega fundi nefnda landanna þriggja.

Seint í gærkvöld fengust þær fréttir að fundinum hefði verið slitið undir kvöld í gær, án þess að nokkuð hefði þokast. Þessi niðurstaða hefði verið íslensku samninganefndinni mikil vonbrigði og nefndarmenn hefðu allt eins átt von á því að halda heim til Íslands í dag. Töldu nefndarmenn útséð um það að nein niðurstaða fengist í þessari samningalotu þótt viðræðum hefði ekki verið formlega slitið og menn svo sem ekki skilið í neinu fússi.

Ljóst væri að atkvæðagreiðsla færi fram á laugardag um Icesave-lögin frá því 30. desember 2009.

Nú er talið með öllu óljóst hvað tekur við í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu. Viðmælendur Morgunblaðsins sögðu í gærkvöld að þeir gætu ekki lagt á það mat hvort áhugi væri fyrir því að taka á nýjan leik upp samningaviðræður við Breta og Hollendinga í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu. Það myndi væntanlega ekki skýrast fyrr en í fyrsta lagi í næstu viku.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina