Mikill áhugi erlendra fjölmiðla

Upplýsingafundur með erlendum fréttamönnum í Iðnó í morgun. Kristján Þór …
Upplýsingafundur með erlendum fréttamönnum í Iðnó í morgun. Kristján Þór Júlíusson og Guðbjartur Hannesson sátu fyrir svörum. Árni Sæberg

Blaða- og fréttamenn frá hátt í 30 erlendum fjölmiðlum eru staddir hér á landi í tilefni af þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave á laugardaginn.

Mikill áhugi var á fréttamannafundum sem haldnir voru fyrir þá í morgun með annars vegar þingmönnum frá stjórn og stjórnarandstöðu, þeim Guðbjarti Hannessyni og Kristjáni Þór Júlíussyni, og hins vegar með Gylfa Magnússyni, efnahags- og viðskiptaráðherra. 

Íslensk stjórnvöld hafa opnað sérstaka fjölmiðlamiðstöð í Iðnó og þangað hafa komið fulltrúar stjórnvalda til upplýsingafundar með fjölmiðlunum. Flestir eru þeir frá Norðurlöndunum, Bretlandi og Hollandi, en einnig koma fréttamenn lengra að, svo sem frá Bandaríkjunum, Kína og Japan. 

 Meðal fjölmiðla sem sent hafa hingað sína fulltrúa eru BBC, sem eru alls með um 10 manns, Financial Times, New York Times, Independant, Telegraaf, Volkskrant, Irish Times og Aftenposten. Gert er ráð fyrir að fjölmiðlamiðstöðin verði opin fram á sunnudagskvöld.

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra svaraði spurningum erlendra fjölmiðla í Iðnó.
Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra svaraði spurningum erlendra fjölmiðla í Iðnó. Árni Sæberg
mbl.is