Fréttaskýring: Skilaboð til ríkisstjórnarinnar

Reuters

„Þetta eru sterk skilaboð til umheimsins og ríkisstjórnarinnar,“ segir dr. Stefanía Óskarsdóttir, stjórnmálafræðingur, um fyrstu tölur úr Icesave-kosningunni. Hún segir að miðað við aðstæður sé kjörsókn nokkuð góð; sérstaklega í ljósi þess að fjármálaráðherra hafi látið í veðri vaka að nýr samningur stæði til boða strax eftir helgi.

Rúmlega helmingur kosningabærra manna hafði mætt á kjörstað í flestum kjördæmum klukkan níu og samkvæmt fyrstu tölum kusu meira en 90% gegn Icesave-lögunum.

„Það eru mjög afgerandi skilaboð, bæði til ríkisstjórnarinnar og umheimsins. Þetta hlýtur að hafa einhverja eftirmála, þannig að menn geta ekki bara skroppið til London eftir helgi eins og ekkert sé, til að skrifa undir nýjan samning sem þar bíður,“ segir Stefanía.

Ríkisstjórn í vanda

Ríkisstjórnin stendur frammi fyrir miklum vanda, segir Stefanía, þar sem hún kemur hugðarefnum sínum ekki í gegn sökum þess að þingmeirihlutinn stendur ekki saman.  „Og það er alvarlegt mál. Vandinn er innri ágreiningur innan stjórnarinnar, sem hefur ekkert með stjórnarandstöðuna að gera.“

Þá segir Stefanía að hótun Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, um að ef að stjórnarandstaðan verði erfið viðureignar þá sjái ríkisstjórnin bara sjálf um að afgreiða málið, sé ekki bitmikil. Bretar og Hollendingar setji það sem skilyrði fyrir samningi að stjórnarandstaðan sé með í ráðum, bendir Stefanía á, enda viti þeir sem er að ríkisstjórnin geti átt erfitt með að koma óvinsælum málum í gegn.

Stefanía bendir á að Steingrími J. Sigfússyni, fjármálaráðherra, virðist liggja mjög á að semja við Breta og Hollendinga - og hafi virst vera nánast tilbúinn til að semja um hvað sem er. Hins vegar hafi Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, lýst því yfir að ekkert liggi á að semja. „Þannig að bilið á milli stjórnar og stjórnarandstöðu, sérstaklega Steingríms og Sigmundar Davíðs, er svakalega breitt.“

Stefanía Óskarsdóttir.
Stefanía Óskarsdóttir.
mbl.is

Bloggað um fréttina