Endanleg úrslit ekki fyrr en á morgun

Reykvíkingar á kjörstað í dag.
Reykvíkingar á kjörstað í dag. Reuters

Ljóst er, að endanleg úrslit í þjóðaratkvæðagreiðslunni munu ekki liggja fyrir fyrr en á morgun því ekki er von á atkvæðum frá Grímsey fyrr en þá. Ekki var hægt að fljúga með atkvæðin í dag vegna veðurs og mun yfirkjörstjórn Norðausturkjördæmis ekki birta lokatölur þar fyrr en þau berast.

Að sögn Páls Hlöðverssonar, formanns yfirkjörstjórnar Norðausturkjördæmis, er enn beðið eftir atkvæðum frá Austurlandi en talið er í KA-heimilinu á Akureyri.

Í Norðvesturkjördæmi eru atkvæði talin í Íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi. Samkvæmt upplýsingum frá yfirkjörstjórn hafa aðeins borist um 6 þúsund atkvæði en beðið er eftir atkvæðum frá Vesturbyggð, Dalasýslu, Akranesi og víðar. Atkvæði sem greidd voru í Ísafjarðabæ eru talin þar. Ekki er búist við að endanleg úrslit í kjördæminu liggi fyrir fyrr en undir morgun.

Í Suðurkjördæmi er búið að telja um það bil helming atkvæða sem þar voru greidd. Ekki var hægt að fljúga með atkvæði frá Höfn og er verið að flytja þau með bíl til Selfoss þar sem talning fer fram. Þá var flogið með atkvæði frá Vestmannaeyjum á Bakkaflugvöll og þeim síðan ekið þangað. Grímur Hergeirsson, formaður yfirkjörstjórnar, reiknaði með að talningu lyki ekki fyrr en undir morgun. 

Ekki var ljóst hvenær búast mætti við að talningu í Reykjavíkurkjördæmunum og í Suðvesturkjördæmi lyki. Miðað við þær tölur, sem voru komnar undir miðnættið, var kjörsókn á landinu öllu á milli 55-60%. 93,6% höfðu sagt nei, 1,5% sögðu já og 4,8% skiluðu auðu.

mbl.is

Bloggað um fréttina