Lán frá Finnum háð Icesave

Finnsk stjórnvöld segjast reikna með, að Íslendingar nái samkomulagi við Breta og Holllendinga um Icesave-málið en fyrr verði ekki greitt út það sem eftir er af láni, sem Finnar hafa heitið Íslendingum í tengslum við samkomulag Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. 

„Það er æskilegt og mjög líklegt, að Ísland nái samkomulagi við Breta oog Hollendinga um fjármögnun Icesave-skuldarinnar," hafði finnska ríkisútvarpið YLE eftir Ilkka Kajaste, háttsettum embættismanni í finnska fjármálaráðuneytinu, í dag.

Hann sagði að erfitt væri að meta hvenær slíkt samkomulag muni nást og hve fljótt hægt væri að greiða Íslandi lánsféð. 

Norrænu seðlabankarnir samþykktu að veita Íslendingum 1,8 milljarða evra lán á síðasta ári. Hluti lánsins hefur verið greiddur út en Norðurlöndin hafa sagt að afgangurinn verði greiddur út eftir að önnur endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands hefur farið fram hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það átti að gerast í janúar en hefur tafist og eru þær tafir raktar til Icesave-málsins.

mbl.is