Sigríður Ingibjörg: Samningsstaða Íslands hefur styrkst

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir
Sigríður Ingibjörg Ingadóttir

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingkona Samfylkingarinnar, segir í grein sem hún ritar á vef ungra jafnaðarmanna, að þjóðaratkvæðagreiðslan hafi  styrkt samningsstöðu landsins. Þá samningsstöðu beri að nýta hratt og örugglega til að ná nýjum samningum og klára Icesave.

„Þjóðin hefur talað. Niðurstaðan kemur ekki á óvart, enda ljóst um nokkurt skeið að nýr Icesave samningur væri í spilunum. Kosningaþátttakan var þokkaleg og raunar með ágætum miðað við að raunverulegir valkostir voru ekki til staðar. Þetta sannar enn eina ferðina sterkar skoðanir þjóðarinnar á Icesave og ekki síður áhuga kjósenda á þjóðaratkvæðagreiðslum.

Við þessi tímamót vil ég rifja upp af hverju ég greiddi atkvæði með samningnum á sínum tíma. Mín skoðun var sú að Icesave samningurinn væri nauðarsamningur. Ekkert erlent ríki hefur stutt sjónarmið Íslands í Icesave nema Færeyjar og erlend aðstoð við uppbyggingu efnahagslífsins eftir hrunið hefur strandað á lausn þessa máls. Við þær aðstæður taldi ég ábyrgðarhluta að draga málið lengur.

Staða málsins er ennþá þessi, því miður. Þjóðaratkvæðagreiðslan hefur dregið Breta og Hollendinga aftur að samningaborðinu og nú ljá þeir máls á tilslökunum sem komu ekki til greina fyrir nokkrum mánuðum. Þetta gefur vonir um að hægt sé að ná betri samningum en áður. Ég tel því nauðsynlegt að ljúka málinu hratt og örugglega svo hægt sé að snúa sér af krafti að uppbyggingu atvinnulífs í landinu," segir Sigríður Ingibjörg í greininni.

Hér er greinin í heild

mbl.is