Guðfríður Lilja segir Árna Pál njóta trausts ólíkra aðila

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna.
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna. mbl.is/Kristinn

„Eins og við öll vitum, þá er þetta mjög sérstakt mál, með mikla og þunga sögu á bakvið sig og það er þannig að síðan að Árni Páll tók við málinu þá hefur hann áunnið sér traust ólíkra aðila sem jafnvel í upphafi gerðu alls ekkert ráð fyrir því að hann væri traustsins verður í málinu, en hann hefur áunnið sér traust margra ólíka aðila með því hvernig hann hefur haldið á málinu og með þeim baráttuvilja sem hann hefur sýnt síðan hann tók við því,“ segir Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingmaður Vinstri-grænna, aðspurð út í bókun meirihluta utanríkismálanefndar í gærkvöldi þess efnis að fyrirsvar í dómsmálum og öðru sem snúi að Icesave gagnvart ESA og EFTA-dómstólnum verði áfram í höndum Árna Páls Árnasonar, efnahags- og viðskiptaráðherra.

Að sögn Guðfríði Lilju er mikilvægt að sú sátt sem ríkt hefur um málið að undanförnu haldi áfram og því sé eðlilegt að Árni Páll haldi áfram með málið. „Það eru mörg fordæmi fyrir því að fagráðherra haldi á málum, þó svo að um sé að ræða milliríkjamál. Það eru ýmis fordæmi fyrir slíku,“ segir Guðfríður Lilja og bætir við „í nafni samstöðunnar og samheldninnar og þeirrar sáttar sem ríkt hefur um þetta mál núna að undanförnu þá tel ég að þetta verði málinu til góðs en auk þess tel ég ekki heppilegt að ESB aðildarviðræðuferlið og Icesave sé á einni á sömu hendi í ljósi forsögu málsins.“

„Það að setja þetta mál upp sem einhvers konar flokkspólitískt mál eða sem mál stjórnar gegn stjórnarandstöðu, það er akkúrat nálgunin sem við eigum að forðast í lengstu lög. Nú er þetta orðið mál allra okkar Íslendinga, með tvær þjóðaratkvæðagreiðslur að baki og nú skiptir öllu máli að það sé haldið þannig á málum að við getum öll verið sem sáttust og það er þannig að það hefur ríkt sátt um málsmeðferð Árna Páls hingað til og því er bara eðlilegt að hann haldi áfram,“ segir Guðfríður Lilja aðspurð hvort hún hafi fundið fyrir stuðningi við þessa afstöðu sína á meðal flokkssystkina sinna í Vinstri grænum.

Guðfríður Lilja bætir við að hún hafi tekið þessa afstöðu sína á málefnalegum forsendum og í henni felist ekki vantraustsyfirlýsing á einn né neinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina