Kuldakast haft áhrif á silungsveiðina

Erlendur veiðimaður með fallegan urriða á Ion-svæðinu á Þingvöllum í …
Erlendur veiðimaður með fallegan urriða á Ion-svæðinu á Þingvöllum í morgun. Stefán Kristjánsson

Lítið hefur verið um fréttir af silungsveiði í vötnum landsins að undanförnu enda veiði í silungsveiðivötnum oft tregari en ella í kuldatíð.   

Veiði byrjaði þó af krafti í Hlíðarvatni í Selvogi þann 1. maí og drógu þrjár stangir á vegum Ármanna 60 bleikjur á þurrt fyrsta daginn. Menn þar á bæ tóku reyndar forskot á sæluna laugardaginn 29. apríl, að loknum árlegum hreinsunardegi og veiddu 30 bleikjur á skömmum tíma. Komu að minnsta kosti 12 bleikjur til viðbótar á land hjá veiðimönnum á vegum stangveiðifélagsins Árbliks sem einnig er með veiðirétt í vatninu.

Veiðikortið hefur 34 veiðisvæði á sínum snærum víða um land. Fyrstu vötnin opnuðu í byrjun apríl og hafa umsjónamenn Veiðikortsins verið að fá upplýsingar um veiðiskap frá nokkrum veiðimönnum. Fram kemur að í Hraunsfirði hafi verið mikið líf og fín veiði síðustu daga eftir að hlýna fór að einhverju ráði. Dæmi eru um að menn hafi fengið dagsveiði upp á annan tug fiska.

Þá er greint frá því inn veiðifréttasíðunni Vötn og veiði að síðastliðin helgi hafi verið mjög góð í Hraunsfirðinum. Þar er haft eftir Bjarna Júlíussyni sem þekkir vel til á svæðinu að mikið hafi verið af vænni bleikju á ferðinni hraunsmegin og margir veiðimenn veitt ágætlega, bæði út af Búðarnesinu og svo norður og vestur í öllum víkunum í hrauninu. Þeir sem veiða best hafa verið duglegir að skipta reglulega um flugur, en alls kyns marflóarafbrigði, Peacock og Langskeggur hafa verið að gefa vel.

Þingvallavatn hefur verið heldur rólegt það sem af er og lítið af fréttum borist þaðan. Segja þeir sem til þekkja að aðallega sé kulda um að kenna. Urriðaveiðin á Ion-svæðinu við Nesjavelli róaðist einnig talsvert í kuldahretinu en var fljótt að taka við sér þegar hlýnaði og þar hafa komið mjög góðir dagar inn á milli.

Í þjóðgarðinum hafa veiðimenn ekki orðið varir við mikið af bleikju ennþá, nema þá helst sílableikjur. Til viðbótar er einn og einn stórurriði verið að veiðast þar líka en með auknum hlýindum er von á meiri bleikjuveiði. Hafa vinsælustu staðirnir í þjóðgarðinum löngum verið við Vatnskotið og út á svokölluðum Lambhaga.

Þá greinir Veiðikortið frá því að veiðimaður nokkur hafi fengið nokkrar fallegar bleikjur í svokallaðri Botnavík í Úlfljótsvatni, en það svæði er jafnan ekki komið í gang fyrr en um miðjan júní.

Þá hefur eitthvað verið að veiðast í Kleifarvatni á Reykjanesi en það er frægt fyrir stórfiska og hafa rannsóknir sýnt að mikið er af fiski í vatninu og hafa kafarar orðið varir við mikið af vænum fiski þar. Fram kemur á Veiðikortinu að veiðimaður einn sem sem var þar síðastliðinn sunnudag fékk tvo væna urriða í vatninu og var sá stærri 8 kg og var 81cm og 53 cm að ummáli. Fékk hann svo annan sem reyndist 4 kg.

Fáar fréttir hafa borist frá Elliðavatni og Vífilstaðavatni enda eru þau sérstaklega viðkvæm fyrir kulda. Síðustu daga hafa þó borist fréttir af því að duglegir veiðimenn verið að fá stöku urriða á land úr Elliðavatni. 

Frá Þorsteinsvík við Þingvallavatn í morgun.
Frá Þorsteinsvík við Þingvallavatn í morgun. Stefán Kristjánsson
Frá Þingvöllum í morgun.
Frá Þingvöllum í morgun. Stefán Kristjánsson
mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert