Hamrar til Fish Partner

Laxa-Lundi með mikla veiði af Hamrasvæðinu.
Laxa-Lundi með mikla veiði af Hamrasvæðinu. Fish Partner

Ármót Brúarár og Hvítár í Árnessýslu er fornfrægt stórlaxasvæði en sala á veiðileyfum þar er nú komin í hendur veiðiþjónustufyrirtækisins Fish Partner.

Fram kemur í tilkynning frá félaginu að þetta sé skemmtilegt tveggja stanga veiðisvæði sem á sér langa sögu. Mikið magn af laxi, sjóbirtingi og bleikju gengur um svæðið. Allur lax á leið í Brúará, Stóru Laxá, Litlu Laxá, Tungufljót, Fossá og Dalsá fer um svæðið.

Laxinn á það til að liggja í skilum fersk- og jökulvatnsins langt fram á haust á Hamrasvæðinu áður en hann gengur upp bergvatnsárnar til hrygningar.

Þrír merktir veiðistaðir eru á svæðinu, Hamrar, Ullarklettur og Hængaklettur. Þeir eru allir stórir og miklir en fiskur getur legið á öllu svæðinu og því mikilvægt að veiða svæðið allt vel. Hamrar geta oft geymt stóra fiska og þekkt fyrir slíkt frá fyrri tíð.

Þannig var með Víglund Guðmundsson, sem kallaður var Laxa-Lundi. Sumarið 1952 veiddi hann hæng sem var 122 cm langur og 66 cm í ummál og veginn 37,5 pund.. Þetta er með stærstu löxum sem veiðst hafa hér á landi.

Sama dag veiddi Laxa-Lundi annan sem var um 30 pundin og þá helgi veiddi hann við annan mann 30 laxa sem þó var ekki þeirra mesta veiði, því helgarveiðin gat farið í 50 laxa.

Sendu ábendingu um frétt
eða myndir á veidi@mbl.is
mbl.is

Sporðaköst, 3. þáttaröð 1996

Velja þátt: 1 2 3 4 5 6