Á að miða við 60 sentimetra í sleppingum?

Einar Sigfússon hefur séð tvenns konar smálaxa ganga í Norðurá ...
Einar Sigfússon hefur séð tvenns konar smálaxa ganga í Norðurá og Haffjarðará. mbl.is/Golli

Í Norðurá og Haffjarðará er að ganga mikið af smálaxi þessa daga. Einar Sigfússon, annar eigandi Haffjarðarár og rekstraraðili Norðurár, segir að í báðum ánum sé um tvenns konar smálax að ræða. Annars vegar þennan hefðbundna smálax á bilinu 50 til 65 sentimetrar. Hins vegar sér hann líka smálax með ólíka hreisturgerð sem er að mælast allt að sjötíu sentimetrar. „Ég held að þetta sé tveggja ára fiskur því hreisturgerðin eru miklu líkari því sem er hjá tveggja ára fiskinum,“ sagði Einar í samtali við Sporðaköst.

„Við áttum von á miklum göngum af smálaxi í fyrra en þær skiluðu sér ekki eins og vonir stóðu til. Nú erum við að sjá sterkar göngur inn í Stekkinn í Norðurá enda stutt í stærsta straum, þannig að útlitið er mjög gott. En þessir stærri smálaxar eru gott hlutfall af göngunni og styrkir þetta allt enn frekar.“

Sporðaköst höfðu samband við Sigurð Má Einarsson, fiskifræðing hjá Hafrannsóknastofnun, sem meðal annars annast rannsóknir á Vesturlandi. Spurningin var: Getur tveggja ára lax komið aftur sem smálax – miðað við skilgreininguna að fiskur undir 70 sentimetrum sé smálax og fiskur sem er lengri sé stórlax?

Getur verið tveggja ára þótt sé undir 70 sentimetrum

„Hefðbundnu mörkin liggja í kringum 70 sentimetrana. Það er rétt. En við sjáum oft tveggja ára fisk niður í 65 sentimetra. Ef hann hefur verið heldur smár eftir fyrra árið af sjávardvölinni þá getur hann fallið undir 70 sentimetrana. Svo getur þetta líka verið fiskur sem hefur hrygnt áður. Það er fiskur sem gengur niður að vori og kemur svo inn aftur sama sumar og hefur þá litlu bætt við sig í lengd en þó einhverju. Hann er oft 65 til 70 sentímetrar,“ sagði Sigurður Már.

Hann segir þetta oft koma fram við rannsókn á hreistursýnum en mjög gott eftirlit er einmitt til staðar í Norðurá hvað þetta varðar.

Þannig að það er til í dæminu að smálax sé meira en eitt ár í sjó?

„Við skulum orða það þannig að tveggja ára laxinn getur farið niður í efsta hluta af smálaxastærð. Þarna er aðeins skörun og þetta gerist sérstaklega þau árin þegar vöxtur er frekar hægur í sjó, eins og var í fyrra. Það getur alveg passað að tveggja ára fiskurinn í ár fari aðeins niður fyrir sína stærð, eða hluti af honum.“

Á að miða við að sleppa öllu yfir 60 sentimetrum?

Einar Sigfússon veltir fyrir sér í þessu samhengi hvort 70 sentimetra reglan sé of rúm, en oft er miðað við að sleppa fiski sem er yfir 70 sentimetrar. „Eigum við kannski að miða frekar við 60 sentimetra?“ veltir Einar fyrir sér.

„Og þegar maður horfir til þess að allt að þrjátíu prósent af fiski lifir af hrygningu og gengur aftur í ána sem stæltur og flottur fiskur, þá er það klárlega enn eitt lóðið á vogarskál – veiða og sleppa.“

Hér má hugsa sér að fiskur sem gengur um miðjan júlí og veiðist tvisvar það sumar. Hann hrygnir og lifir af og gengur til sjávar vorið eftir. Hann gengur aftur í ána síðar um sumarið og veiðist þá aftur. Jafnvel tvisvar.

Sendu ábendingu um frétt
eða myndir á veidi@mbl.is
mbl.is