Krókurinn hans Gylfa og hitch

Krókurinn er öflug púpa fyrir bæði urriða og bleikju.
Krókurinn er öflug púpa fyrir bæði urriða og bleikju. Ljósmynd/Veiðihornið

Fluga vikunnar fyrir silung er Krókurinn hans Gylfa Kristjánssonar sem er löngu orðin ein þekktasta silungsveiðipúpan í bransanum. Krókinn má nota jafnt í urriða og bleikju en einnig hafa veiðst á hana margir laxar þegar henni er kastað andstreymis í litlu vatni síðsumars.  Algengara er að veiða á stærri útfærslur Króks á vorin og snemmsumars en þegar líða fer á og hitnar er betra að fara í smærri flugur.

Þessar hitch-túpur eru skæðar í laxinum og aðferðin er stórskemmtileg. Ljósmynd/Veiðihornið

Þrjár af þeim bestu

Hitch eða gáruaðferðin er af mörgum talin sú skemmtilegasta í laxveiðinni. Áður fyrr var sett bragð á tauminn yfir hausinn á léttklæddri flugu en í seinni tíð hafa gárutúpurnar eða "hitch túpurnar" meira og minna tekið yfir.  Þegar veitt er á hitch skal mynda fínlega "v"-lagaða gáru á yfirborði vatnsins og oftar en ekki má sjá miklar ólgur og læti þegar laxinn stekkur eða veltir sér á túpuna. Á myndinni eru þrjár af þeim bestu eða Silver Wilkinson til vinstri, Arndilly Fancy til hægri og Collie Dog fyrir aftan.

mbl.is