Fjórtán ára ástríðuveiðimaður

Veiðimaður vikunnar er fjórtán ára og hefur alist upp á ...
Veiðimaður vikunnar er fjórtán ára og hefur alist upp á bökkum Nesveiða í Aðaldal. Hér er Hilmar Þór Árnason með fallegan lax fjarri heimaslóðum. Ljósmynd/Aðsend

Veiðimaður vikunnar er alveg hár í loftinu en hann er ekki nema fjórtán ára gamall og er að læra til leiðsögumanns í Nesi við Laxá í Aðaldal. Hann heitir Hilmar Þór Árnason og er sonur Árna Péturs staðarhaldara í Nesi. Hilmar Þór býr því við Laxá. Sporðaköst rákust fyrst á þennan unga veiðimann í Víðidalsá í vor og vakti hann eftirtekt fyrir ósvikinn og einlægan áhuga á veiðiskap og öllu því er honum viðkemur.

„Ég var bara eiginlega alltaf með veiðidellu frá því að ég man eftir mér. Ég hef oft verið að veiða silung en maríulaxinn minn fékk ég í Suðurhólma í landi Ness. Það var fimmtán punda fiskur og hann tók Metalicu. Ég hafði oft fengið að hjálpa pabba við að landa og hafði fengið að halda á stönginni þegar hann var með fisk,“ sagði Hilmar Þór í samtali við Sporðaköst.

Stefnir að því að verða leiðsögumaður

Þú ert í þjálfun sem leiðsögumaður í Nesi, er það ekki?

„Ég stefni mjög ákveðið að því að verða leiðsögumaður og fæ mjög oft að vera með pabba þegar hann er í leiðsögn. Það er alveg á hreinu að ég ætla að verða leiðsögumaður hér við Laxá.“

Og hvað þarf góður leiðsögumaður að hafa til brunns að bera?

„Hann þarf að hafa mikla þekkingu á svæðinu og vita hvar fiskurinn er og hvar hann tekur helst. Svo þarf góður leiðsögumaður að hafa ástríðu fyrir laxveiði. Hann þarf líka að vera mjög góður kastari.“

Og hvernig á að umgangast viðskiptavininn?

„Maður þarf alltaf að hafa þolinmæði. Það þurfa allir veiðimenn að hafa þolinmæði. Það er bara svoleiðis og þetta sport getur alveg verið erfitt. Það er bara þannig. Maður verður að gera þetta með því hugarfari að laxinn getur alltaf tekið, alveg sama hvernig aðstæður eru. Maður verður alltaf að hafa trú á þessu.“

Hilmar Þór segist æfa fluguköst eins mikið og tíminn leyfir og hann sé smám saman að ná tökum að tvíhendunni en eigi langt í land með einhenduna, enda leggi hann minni áherslu á hana. „Ég vil verða betri og maður getur alltaf orðið betri.“

Í Nesi veiða menn fyrst og fremst á tvíhendu enda veiðistaðirnir oft miklir og stórir.

Fimmtán punda maríulax

Stærsti fiskur Hilmars er enn sem komið er maríulaxinn sem var fimmtán pund. Hann hefur hins vegar verið í sambandi við marga stærri og oft fengið að taka í stöngina hjá pabba sínum þegar hann hefur verið að þreyta stórlaxa. „Þegar pabbi fékk fyrsta tuttugu pundarann sinn þá fékk ég að þreyta hann allavega í kortér. Pabbi var aldrei búinn að sjá fiskinn en svo þegar hann áttaði sig hvað hann var stór þá tók hann strax af mér stöngina.“

Hilmar Þór var með pabba sínum þegar Árni Pétur setti í og landaði 111 sentímetra fiski. Hilmar Þór fékk að taka aðeins í stöngina, en ekki lengi. Hann segir að pabbi sinn hafi strax áttað sig á hvað þar var stór fiskur á ferðinni.

„Þetta sko mikið ævintýri þarna á Skriðuflúð þegar pabbi veiddi þrjátíupundarann.“ Hilmar Þór dæsir við tilhugsunina. En Skriðuflúð er einmitt uppáhaldsstaður hans í Nesi. Hann segist hafa séð þar ótrúlega marga og stóra laxa, bæði stökkva og fiska sem veiðimenn hafa sett í. „Svo kveikti þrjátíu pundarinn hjá pabba í mér, þannig að þetta er minn uppáhaldsstaður.“

Hilmar Þór með fallegan lax úr Nesi. Veiðimaðurinn er Lilla, ...
Hilmar Þór með fallegan lax úr Nesi. Veiðimaðurinn er Lilla, sem hann heldur mikið upp á. Myndin er frá því í fyrra. Ljósmynd/Aðsend

Lilla merkilegur veiðimaður

Hilmar segir að það sé gaman að kynnast ólíkum veiðimönnum. Hann heldur þó mest upp á þegar hin 92 ára veiðikona Lilla Rawcliff og hennar fólk mætir í Laxá. Hann hefur lengi fengið að vera viðloðandi heimsóknir Lillu og fengið að vera með pabba sínum í leiðsögn með Lillu.

„Hún er mjög skemmtilegur persónuleiki og þó að hún sé orðin 92 ára þá er hún enn að kasta og er flink. Það er alveg ótrúlega gaman að hafa fengið að vera í kringum hana og ég myndi segja að hún væri merkilegasti og skemmtilegasti veiðimaður sem ég hef verið í kringum.“

Hilmar Þór var einmitt með í því ævintýri sem gerðist um síðustu helgi þegar Lilla landaði enn einum tuttugu pundara. Árni Pétur þurfti að hlaupa með stöngina og missti hana svo og þurfti á endanum að kasta sér til sunds til að ná stönginni. En þetta endaði vel og Lilla landaði laxinum. Á meðan þetta ævintýri stóð var Hilmar Þór Lillu til halds og trausts úti í ánni.

Kátir feðgar. Hilmar Þór heldur á tuttugu pundara sem pabbi ...
Kátir feðgar. Hilmar Þór heldur á tuttugu pundara sem pabbi hans veiddi. Hann hefur oft fengið að takast á við þá eftir að pabbi hefur sett í þá. Ljósmynd/Aðsend
Hvað er langt í að þú verðir tilbúinn einn og sér að taka að þér veiðimann?

„Ég er farinn að þekkja marga staði ágætlega og veit alveg hvar hann tekur. En ég þarf náttúrulega að fá bílpróf áður en ég get farið að gera þetta alveg einn.“ Auðvitað hugsa ég. Hann er bara fjórtán ára.

Hilmar Þór hefur náttúrulega veitt mest í heimalandinu, Nesi en hefur þó komið í nokkrar aðrar laxveiðiár. Hann nefnir Þverá, Víðidalsá, Skjálfandafljót og Laxá á Ásum. Honum finnst gaman að koma í nýjar ár og kynnast þeim. „En Nesveiðar eru samt alltaf uppáhalds. Ég á svo mikið af minningum af því svæði. Þó að allar ár hafi eitthvað sérstakt og séu öðruvísi.“

Sendu ábendingu um frétt
eða myndir á veidi@mbl.is
mbl.is

Sporðaköst, 3. þáttaröð 1996

Velja þátt: 1 2 3 4 5 6