Villimenn sem veiða og sleppa

Elías Pétur með 87 sentímetra hæng úr Síðukróki í Víðidalsá.
Elías Pétur með 87 sentímetra hæng úr Síðukróki í Víðidalsá. Ljósmynd/Villimenn

Veiðimaður vikunnar er Villimaður. Einn af þremur sem er í hópnum sem kallar sig Villimenn og hafa verið að gera skemmtilega hluti á samfélagsmiðlum. Þeir hafa sent frá sér stutt myndbönd af veiði og fylgjendahópur þeirra er stór og vaxandi.

Veiðimaður vikunnar er Elías Pétur Viðfjörð Þórarinsson og þar er á ferðinni maður með magnaða veiðidellu. „Við köllum okkur Villimenn kannski af því að við erum býsna langt frá mörgum jafnöldrum okkar. Erum í miklum tengslum við náttúruna og veiðimennsku.“

En svo eruð þið engir villimenn – kannski þvert á móti?

„Já við erum erum mjög duglegir í að sleppa og vöndum okkur við að ganga vel um veiðisvæði.“

Villimennirnir eru þrír. Fyrir utan Elías þá eru það Óskar Bjarnason og Guðni Hrafn Pétursson sem saman mynda hópinn. Þeir þekktust ekkert fyrir veiði en hafa tengst í gegnum veiðiskapinn og eru í dag bestu vinir. Þetta eru ungir menn á aldrinum 22 til 25 ára.

„Við byrjuðum á snappinu en svo höfum við aðeins fært út kvíarnar og erum nú komnir með Instagram og Facebook-síðu. Það nýjasta sem við erum að gera eru myndbönd og höfum fjárfest í búnaði fyrir slíkt.“

Nýkominn úr laxveiðisafarí

Þeir félagar eru duglegir þegar kemur að veiðinni. Og þeir fara ekki endilega saman að veiða og yfirleitt er einhver þeirra laus til að sinna snappinu og öllu hinu. „Ég er búinn að fara mjög mikið bæði í vor og sumar að veiða. Ábyggilega höfum við samtals verið við veiðar í einhverja fjörutíu daga í sumar. Við Guðni vorum að koma úr tíu daga laxveiðisafarí. Það var alveg magnað.“

Þeir félagar byrjuðu á svæði fjögur í Stóru-Laxá. „Hún var svolítið erfið. Það voru búnar að vera miklar rigningar og áin var köld. Hún var í 25 rúmmetrum. Vanir menn sögðu okkur að þeir vildu hafa hana svona þrettán rúmmetra. En við sáum mikið af fiski í ánni. Við vorum þarna í einn og hálfan dag og misstum tvo fiska.“

Næst lá leið þeirra félaga austur á Hérað og þeir veiddu Jöklu í þrjá daga. „Þetta byrjaði mjög rólega hjá okkur. Við tókum einn á vakt fyrstu þrjár vaktirnar. Svo í kringum stórstreymið þá fóru hlutirnir að gerast. Við fórum í veiðistaðinn Hólaflúð, sem er frekar langt upp í Jökuldalnum. Við lönduðum fjórum og misstum þrjá allt á sömu vaktinni.“

Þeir félagar áttu svo að byrja eftirmiðdagsvakt í Svartá í Húnavatnssýslu en eins og gefur að skilja voru þeir seinir fyrir. „Við náðum að veiða í raun bara eina heila vakt. Aðstæður voru svipaðar og í Stóru-Laxá. Fengum rigningu og það var mikið vatn og kalt. Þarna misstum við tvo laxa.

Í framhaldi af Svartá fórum við í á sem heitir Miðdalsá. Áttum ekki von á miklu. Við vorum á leið í Laugardalsá og áttum einn og hálfan dag sem við höfðum ekkert við að vera. Svo við skelltum okkur í Miðdalsá og ætluðum að reyna við sjóbleikjuna. Það var alveg meiri háttar. Við veiddum í raun bara ósasvæðið og fengum fimmtán bleikjur og misstum annað eins. Við sáum líka lax stökkva þarna og áin kom okkur svakalega á óvart.

Í framhaldi af þessu var brennt í Djúpið í Laugardalsá. Þar var stuð. Við lönduðum þar fjórum löxum og misstum fjóra. Þarna var mikið líf. Fiskur að ganga og hann var í nánast öllum stöðum. Við gengum bara niður með ánni með hitch og vorum að kasta á fiska sem við sáum.“

Glæsileg fjallableikja úr Köldukvísl.
Glæsileg fjallableikja úr Köldukvísl. Ljósmynd/Villimenn

Í framhaldi af þessu fór Elías að veiða sjóbleikju í Jökulfjörðum. Samtals var þetta fimmtán daga túr hjá honum. Hann segist ekki hafa verið orðinn leiður á vöðlunum. Það hafi þó verið afskaplega gott að þrífa þær þegar hann kom heim.

Vilja örva nýliðun

En það er svo sem ekki bara veiðidellan sem rekur þá áfram. Þeir eru að höfða til sinnar kynslóðar. „Við viljum örva nýliðun í sportinu. Í svolítið langan tíma hefur nýliðun verið mjög lítil. Og auðvitað spilar þar stórt hlutverk að þetta er dýrt sport. Græjurnar í upphafi kosta sitt og verð á veiðileyfum er stór biti fyrir ungt fólk.

Það er fullt af ungu fólki sem fylgist með okkur og við erum ekki bara fókusaðir á veiði. Við erum líka að sýna stemmninguna sem er í kringum þetta. Fjörið sem er í þessu. Við erum að hvetja félaga okkar til að koma og þeir eru mjög margir í startholunum.“

Fallegur Þingvallaurriði af ION-svæðinu.
Fallegur Þingvallaurriði af ION-svæðinu. Ljósmynd/Villimenn

En hvað finnst þér sjálfum skemmtilegast í þessu? Bleikjan eða laxinn?

„Ég hef alltaf verið dálítill laxveiðipervert og það er örugglega vegna þess að ég veiddi mikið með föður mínum heitnum og þá var það aðallega sjóbleikja og silungur almennt. Við gátum leyft okkur að fara í eina laxveiðiferð á ári og það var alltaf risastórt í mínum huga að fara í lax. Þegar ég fór með pabba þá voru þetta ekki margir laxar sem veiddust í hverjum túr. Þannig að hver fiskur var svo dýrmætur.“

Elías er rokinn, fram undan er veiði og meiri veiði. Fyrir þá sem vilja kynna sér það sem Villimenn eru að gera er rétt að benda á að Snapchat-kóðinn þeirra er „villimenn“ og þeir eru á Facebook og Instagram.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert