Reikna með meiri hnúðlaxi næsta ár

Hnúðlax sem veiddist í Sandá í fyrra.
Hnúðlax sem veiddist í Sandá í fyrra. SHS

Eftir óvenjumikið af hnúðlaxi í íslenskum ám í fyrra hefur lítið verið tilkynnt um þennan framandi fisk í ár. Hafrannsóknastofnun fékk um sjötíu tilkynningar í fyrra um veiði á hnúðlaxi og bárust þær frá öllum landshlutum. Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri hjá Hafrannsóknastofnun, býst við að nokkuð mikið verði um hnúðlax í íslenskum ám á næsta ári. Hann segir staðfesta hrygningu í tveimur ám í fyrra. „Ég sá tvær úthrygndar hnúðlaxahrygnur í fyrra. Önnur var úr Soginu og hin úr Mjólká. Þær höfðu báðar losað sig við hrogn og þær gera það ekki öðruvísi en að hængur sé í spilinu,“ sagði Guðni í samtali við Sporðaköst. Og hann heldur áfram. „Ég held að við getum verið nokkuð örugg á því að það hefur orðið hrygning hjá hnúðlaxi í þó nokkuð mörgum ám á Íslandi, miðað við fjöldann og dreifinguna á þeim fiskum sem við fréttum af.“ Lífsferill hnúðlaxins er þannig að oddaárið er alltaf stærra en jafna árið, segir Guðni. Hnúðlaxinn hrygnir seinni hluta sumars og seiðin fara út árið á eftir og eru eitt ár í sjó. Þetta þýðir að hnúðlaxaseiði sem gengu út úr íslenskum ám munu koma aftur næsta sumar sem fullvaxnir hnúðlaxar.

Hnúðlax úr Hafralónsá sem veiddur var í ágúst í fyrra.
Hnúðlax úr Hafralónsá sem veiddur var í ágúst í fyrra. Sigurður Ólafsson

Er hnúðlaxinn að nema hér land?

„Í fyrra veiddust hátt í fjögur þúsund hnúðlaxar í Noregi. Eins og við vitum þá fluttu Rússar hnúðlaxinn frá Kamchatka yfir á Kólaskaga árið 1958 og hófu hafbeit. Hnúðlax hefur náð uggafestu í ám á Kólaskaga. Hann hefur verið að dreifa sér og það er orðin hrygning í nokkrum ám í Norður-Noregi. Svo kom þessi rosalega sprenging í fyrra og það fóru að veiðast hnúðlaxar í óvenjumiklu mæli. Það veiddust hnúðlaxar um allar Bretlandseyjar, í Frakklandi og einhver dæmi voru líka frá Spáni.“ Guðni vill ekki slá því föstu að hann sé að ná hér uggafestu en telur fulla ástæðu til að fylgjast grannt með framgangi mála.

Nú er verið að þróa nýja aðferð til að greina hvort hnúðlaxar séu í á. Guðni segist hafa farið á mjög áhugaverðan fund í Edinborg í Skotlandi í fyrra um hnúðlax og það er verið að þróa aðferð til að greina svokallað umhverfis-DNA eða eDNA. Þá dugar að taka vatnssýni úr ánni og skoða DNA í sýninu og þá er hægt að sjá hvort það eru hnúðlaxar í viðkomandi á. „Þetta er alveg glænýtt,“ segir Guðni.

Hnúðlax sem veiddist í Þorskafjarðará í Þorskafirði 31. ágúst í …
Hnúðlax sem veiddist í Þorskafjarðará í Þorskafirði 31. ágúst í fyrra. Jóhann G. Bergþórsson

Hvaða áhrif getur hnúðlaxinn haft á íslenskt lífríki?

Hann telur að hnúðlaxinn haldi sig fyrst og fremst á neðri svæðum áa og geti þar af leiðandi haft meiri áhrif á sjóbleikju og sjóbirting frekar en laxinn. Á móti bendir hann á að hnúðlaxaseiði séu það lítil þegar þau ganga til sjávar að þau séu ekki í mikilli samkeppni við önnur seiði. „Ég veit hins vegar frá Noregi, og það getur verið veiðimannasálfræði, að þar verða menn pirraðir ef það er mikið af hnúðlaxi og vilja meina að það trufli þá í alvörulaxveiðinni.“

En er hnúðlaxinn góður matfiskur?

„Ef hann er nýgenginn er þetta fínasti matfiskur. En ef hann er búinn að vera einhvern tíma í ánni þá er hann orðinn heldur óspennandi.“

En eiga veiðimenn ekki að drepa þennan fisk?

„Þetta er náttúrulega tegund sem ekki á heima í Atlantshafi og alls ekki í okkar ám. Ég tel ekki ólíklegt að hann geti orðið ágeng tegund hér á landi,“ sagði Guðni Guðbergsson.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert