Haugurinn kynnir Klakann í vetur

Haugurinn eða Sigurður Héðinn tekst á við stórlax. Hann er …
Haugurinn eða Sigurður Héðinn tekst á við stórlax. Hann er veiðimaður vikunnar. Ljósmynd/Aðsend

Það er enginn annar en Haugurinn sem er veiðimaður vikunnar að þessu sinni. Þetta er hann Sigurður Héðinn, skapari Haugsins, Vonarinnar og Skugga. Hefur raunar hannað á fjórða tug laxveiðifluga í gegnum tíðina. Dags daglega gengur Sigurður undir nafninu Haugur og það er nokkuð merkilegt að hann tekur það viðurnefni frá flugunni – Haugnum. Siggi Haugur segir að nafngiftin á Haugnum sé ekki mjög flókin eða spennandi saga. „Hún varð til úr haug af drasli á borðinu og heitir þess vegna Haugur. Svo hef ég verið kallaður eftir henni,“ segir hann og hlær.

Er Haugurinn þín besta fluga?

„Já. Ég verð líka að segja Von og svo Skuggi. Þessar þrjár skara fram úr. Vonin varð til í tengslum við keppni hjá Krabbameinsfélaginu og græni liturinn í henni er litur vonarinnar og þannig fékk hún nafnið Von. Skuggi er bara afbrigði af Sunray shadow. Vængurinn er svartur og hvítur með smá glimmeri á milli.“

Haugurinn er sennilega þekktasta fluga Sigga. Enda er hann kenndur …
Haugurinn er sennilega þekktasta fluga Sigga. Enda er hann kenndur við hana. Ljósmynd/Aðsend

Vinnur í stærstu tilraunastöð landsins

Það vilja allir skyggnast inn í framtíðina og þegar Siggi er spurður hvort eitthvað sé í smíðum þá er svarið stutt og laggott. „Alltaf eitthvað í smíðum.“ Hann segist vinna í stærstu tilraunastöð landsins. Hann er í dag ekki með neitt í höndunum sem honum finnst nægilega gott. „Svo bara þróast þetta og undirmeðvitundin fer í gagn og þá fæðist eitthvað í vetur.“

Hvað ertu að spá aðallega í þegar þú hannar þessar flugur?

„Ég er ekki að leita í náttúruna þegar ég smíða þessar flugur. Ég er kominn á þá skoðun í dag að þetta sé frekar lögun og form heldur en litir. Það er frekar formið og lögunin sem pirrar þá. Ég er alltaf meir og meir að komast á þá skoðun.“

Í dag er Siggi Haugur fyrst og fremst að leiðsegja veiðimönnum við Selá og í Hofsá. „Já ég er eiginlega bara kominn á norðausturhornið og kann mjög vel við mig hér.“

Stíllinn leynir sér ekki. Hér er Haugurinn að togast á …
Stíllinn leynir sér ekki. Hér er Haugurinn að togast á við góðan fisk í Víðidalsá. Ljósmynd/Aðsend

Áður fyrr var hann mest við Norðurá. Á þeim árum var fluga sem hann hnýtti og hannaði að gefa honum feiknavel. Þessi fluga hefur ekki verið opinberuð og Siggi ætlar að kynna hana í vetur eða næsta vor. Klakinn heitir hún og er með bláan væng sem er þrískiptur. „Þetta er ein af þessum flóknari flugum og reyndist mér mjög vel.“

Tvær ólíkar drottningar

Þegar hann er spurður út í Selá og Hofsá þá segir hann þær mjög ólíkar. „Þetta eru tvær drottningar hvor með sína sérstöðu.“

Segðu mér Siggi. Ef ég væri að koma í Selá í fyrsta skipti og myndi hringja í þig og spyrja hvernig á ég að veiða hana. Hvað myndir þú ráðleggja mér?

„Fáðu þér leiðsögumann, fyrst.“

Ef það gengur ekki, hvernig á ég þá að gera þetta?

„Þetta eru smáflugur og litlir Sunrayar og vinna alla hylji eins og þeir væru fullir af fiski. Á sumum stöðum þurfa menn að fara hratt yfir en í öðrum stöðum þarf að vinna vel. Það er ekkert mál að festast í hyljum hér í tvo til þrjá tíma. Uppáhaldshyljir mínir í Selá eru Rauðhylur og Skipahylur. Rauðhylur er að mínu mati tæknilega erfiðastur en svo er Skipahylur þægilegur og þar getur verið mjög mikið af fiski. Ég myndi líka mæla með að nota uppáhaldsfluguna mína, en það er Nighthawk.“

Von er fluga sem Haugurinn hannaði. Það er ekki langt …
Von er fluga sem Haugurinn hannaði. Það er ekki langt síðan að hún var fluga vikunnar í Sporðaköstum. Ljósmynd/Aðsend
Fengi ég eins leiðbeiningar hjá þér varðandi Hofsána?

„Já og nei. Þar eru það líka smáflugur en hún er allt öðruvísi. Hún er miklu grynnri og jafnara rennsli og hún er allt annar karakter. Mér finnst hún tæknilega erfiðari og þar skiptir meira máli hvernig horni þú kastar undir og hvernig þú strippar, hægt eða hratt eða stutt, en samt heillandi. Fyrsta val í Hofsá væri Skuggi á mjóu röri.“

En þegar hann er beðinn að bera saman leiðsögn í Norðurá eða í hinum drottningunum tveimur þá hallar á Norðurá. „Hér ertu alltaf bara með eina stöng og átt þitt svæði í fimm eða sex tíma og þú setur upp planið eins og þú telur best fyrir þinn viðskiptavin. Þetta er allt öðruvísi hérna. Maður getur stjórnast sjálfur miklu meira í þessu og er ekki á þessum endalausu hlaupum undan skiptingum.“

Geðheilsan er bara fín

Nú er ágúst langt kominn og þetta er búin að vera löng törn. Hvernig er geðheilsan?

„Hún er bara fín skal ég segja þér. Hér er létt í húsi. Auðvitað finnur maður fyrir þreytu. En maður er ekkert aðframkominn. Munurinn hér er sá að menn ná alltaf sínum sjö átta tímum í svefn ef menn vilja, því veiðin byrjar ekki fyrr en klukkan átta á morgnana og svo nær maður smá leggju í hléinu.“

Hann hefur ekkert náð að veiða sjálfur í sumar. Ekki einn einasta dag. Og hvernig líður veiðimanninum í þér með það?

„Hann er ekki alveg sáttur við þetta.“

Einhver breyting sjáanleg í því?

„Ég veit það ekki. Ég verð að sjá til þegar ég er búinn í leiðsögninni. Það er 16. september. Það verða einhverjir pásudagar en þá skríður maður bara undir feld og sefur.“

Hann segir að morgunvaktin í Selá hafi verið erfið. Það var kalt og vaxandi vatn. „Bara erfitt. En gæti orðið mikið betra seinni partinn.“

Þeir sem hafa áhuga á meiri upplýsingum um flugur Haugsins geta skoðað www.haugur.is eða á Facebook.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Selá í Vopnafirði Erlendur veiðimaður 14. júlí 14.7.
102 cm Laxá í Aðaldal Páll Ágúst Ólafsson 13. júlí 13.7.
104 cm Laxá í Aðaldal Aðalsteinn Jóhannsson 8. júlí 8.7.
100 cm Hólsá, Eystri-bakki Ben Sangster 6. júlí 6.7.
100 cm Blanda Neil Boyd 6. júlí 6.7.
100 cm Hólsá, Eystri-bakki Gijs K. Sipestein 6. júlí 6.7.
102 cm Jökla Nils Folmer Jörgensen 4. júlí 4.7.

Skoða meira