Laxinn seinni í síðsumarsárnar

Þessi lax er einn af þeim sem veiðst hafa í ...
Þessi lax er einn af þeim sem veiðst hafa í Sandá í sumar. Veiðistaðurinn heitir Göngubrú. Sandá er mjög háð haustrigningum. Þegar hún vex gengur laxinn í hana úr Þjórsá. Ljósmynd/Aðsend

Nú er tími síðsumarsánna runninn upp. Þær eru nokkrar og sérstaklega á Suðurlandi þar sem búast má við góðri veiði á þessum tíma. Ein þeirra er Vatnsá í nágrenni Víkur í Mýrdal. Þar eru komnir á land sjötíu laxar og góð sjóbirtingsveiði hefur verið í ánni.

Ásgeir Ásmundsson sem er umsjónarmaður Vatnsár segir laxinn óvenju seint á ferðinni í Vatnsá. Í síðustu viku kom þó ágætisganga í ána. „Veiðimenn sem voru byrjaðir að veiða höfðu samband við mig og þá var ekki fisk að sjá nema í þremur hyljum að þeirra sögn. Ég heyrði svo í þeim daginn eftir og þá var fisk mjög víða að sjá,“ sagði Ásgeir í samtali við Sporðaköst. Þarna voru við veiðar Bretar sem þekkja ána vel og fengu þeir tíu laxa þennan daginn.

Stærsti mældist 93 sentímetrar

Besti tíminn í Vatnsá er oft í kringum mánaðamótin ágúst-september og bindur Ásgeir vonir við að auknar göngur verði í kringum stórstreymið sem nú er. Það er alþekkt að laxinn er nokkra daga að ganga upp Kerlingadalsá sem er jökulá og Vatnsá fellur í. Oft hefur verið ágæt laxveiði í Kerlingadalsá en það hefur ekki verið í sumar. Segir Ásgeir það til marks um að ekki sé gengið mikið af laxi. Annað er upp á teningnum hvað varðar sjóbirtinginn en töluvert magn af honum hefur sést í sumar í Vatnsá og væntanlega er mikið af honum þegar komið upp í Heiðarvatn, sem Vatnsá fellur úr. Oft er góð sjóbirtingsveiði í vatninu á haustin. Nokkuð hefur verið um fallegar tveggja ára hrygnur á bilinu 83 til 87 sentímetrar, að sögn Ásgeirs. Stærsti fiskurinn í sumar í Vatnsá mældist 93 sentímetrar. „Ég er að vonast til að hængarnir af stærri gerðinni láti sjá sig núna,“ sagði hann.

Eins og oft áður er mest af laxi í Frúarhyl en sá veiðistaður er ofarlega í ánni, stutt frá veiðihúsinu.

„Svæðið austan við Markarfljót lýtur einhverju allt öðru lögmáli þegar kemur að laxi. Hann er miklu seinna á ferðinni og alls ekki á vísan að róa.“ Ásgeir hefur mikla reynslu af annarri á austan Markarfljóts, en það er Skógá, sem hann sá um í nokkur ár. Besta hollið í Skógá er alltaf í fyrstu viku september.

Hliðarár Þjórsár; Kálfá, Fossá og Sandá

Þrjár hliðarár Þjórsár hafa flokkast sem síðsumarsár og hefst ekki veiði þar af neinni alvöru fyrr en liðið er nokkuð á ágúst. Þetta eru Kálfá, Fossá og Sandá. Sérstaklega er Sandá háð vatni og svipaða sögu er að segja af Kálfá. Fossá er vatnsmeiri og því síður háð rigningum. Rólegt hefur verið í bæði Fossá og Sandá en ekki fengist staðfestar fréttir af Kálfá. Fossá er komin í tuttugu fiska og færri í Sandá. Nokkuð er um tveggja ára fisk í Fossá og er það hefðbundið. Leigutakar Fossár og Sandár eru sammála um að fiskur sé óvenju seint á ferðinni og hafa ekki skýringar á hvað veldur.

Sendu ábendingu um frétt
eða myndir á veidi@mbl.is
mbl.is

Sporðaköst, 3. þáttaröð 1996

Velja þátt: 1 2 3 4 5 6