Beckham og Sunray standa upp úr

Einar Sigfússon landar laxi í Norðurá. Hann er ánægður með …
Einar Sigfússon landar laxi í Norðurá. Hann er ánægður með sumarið en áin skilaði tæplega sautján hundruð löxum. mbl.is/Einar

„Þetta var gott sumar. Við vorum með tæpa sautján hundruð fiska,“ sagði Einar Sigfússon, rekstraraðili Norðurár í samtali við Sporðaköst. Tilefnið var að gera upp sumarveiðina í Norðurá í Borgarfirði. Hann segir sumarið hafa byrjað vel þrátt fyrir að mikið vatn hafi verið og óvenju kalt, og laxinn því gengið óvenju hægt upp ána. „Mér er sagt af eldri mönnum að það sé ekki óvanalegt þegar svona aðstæður eru. Þetta breytti aðeins áherslunum á sumrinu. Það tók lengri tíma en venjulega fyrir laxinn að komast í einhverju magni fram á dal. En þetta var heilt yfir skemmtilegt sumar.“

Hann segir að nóg hafi verið af fiski í ánni en það hafi komið heldur óvæntur endir í þetta, „Það var sól og þurrkur nánast allan ágúst og langt fram í september og það voru aðstæður sem við hefðum viljað sleppa við. Það hreinlega kom ekki dropi úr lofti.“

Svo gerðist það að fyrsta hollið sem fékk rigningu í langan tíma skilaði tæplega níutíu löxum, dagana 2. til 5. september.

Stærri fiskur

„Mér finnst eins og hafi verið meira af stærri fiski í ár en undanfarin ár. Fyrir um það bil tíu árum voru oft að veiðast hér þriggja og fjögurra punda fiskar. Mér finnst þeir eiginlega horfnir.“

Guði sé lof.

„Já segðu það. Ég veit ekki hverju er að þakka þar en við vitum að hafið ræður alltaf mestu. Það veiddist talsvert af fiski sem var 88 til 95 sentímetrar í sumar og sá stærsti var reyndar 97 sentímetrar. Þessi fiskur sást ekki hérna fyrir svona tíu tólf árum og ég tel þetta dæmi um að sleppingar á stóra laxinum eru að skila sér.“

Einar segist taka eftir því að fólk sé farið að koma með öðru hugarfari í veiði, en var oft áður. Fólk sé tilbúnara til að slappa af og njóta góðs aðbúnaðar í mat og gistingu. Og svo auðvitað veiða.

Myndir úr veiðiferðinni í Norðurá sem David Beckham birti á …
Myndir úr veiðiferðinni í Norðurá sem David Beckham birti á Instagram-síðu sinni. Instagram

....og svo kom Beckham

Og Beckham kom í sumar. Það vakti mikla athygli.

„Já, já. Það var skemmtilegt og tókst vel, því að svona fólk leggur rosalega mikið upp úr því að fá næði og geta verið út af fyrir sig. Það tókst mjög vel og okkar starfsfólk virti allar reglur varðandi símanotkun og að vera ekki að taka myndir.

Þeir voru fimm saman og myndirnar sem birtust af þessu ferðalagi voru myndir sem Beckham setti sjálfur á netið. Hann fékk leiðsögumanninn sinn til að taka mynd af sér með fisk og Laxfoss og Baulu í baksýn. Hann sagði að þetta væri Norðurá og það væri út af þessu sem hann elskaði Ísland. Og eftir tíu daga voru komin 70 milljón like á myndina.“

Hvers virði er svona?

„Þetta er náttúrulega ekkert venjulegt. Ég held að þetta sé ómetanlegt, hvort sem er fyrir laxveiði eða Ísland í heild sinni sem ferðamannastað. Ég var mjög ánægður með þessa heimsókn og okkur er að takast að byggja upp kúnnahóp síðust ár. Við fengum enga kúnna í arf og þetta er búið að vera skemmtilegt verkefni og það hefur tekist vel.“

Er einhver fluga sem stóð upp úr í Norðurá í sumar?

„Nú er stórt spurt. En mér finnst menn vera nota sífellt meira af minni rörum. Litla Sunraya og eitthvað í þeim dúr. Svona hálf tommu eða tommu rör. Það er líka áberandi að veiðimenn eru farnir að nota meira af smáflugum heldur en þeir gerðu hér áður. Það er minna af því að menn komi og byrji hreinlega með einhverjar risatúpur. Í sumar voru veiðimenn líka að taka meira af leiðsögumönnum og það er allt til þess að hjálpa veiðinni. Heilt yfir var þetta gott sumar við Norðurá,“ sagði Einar Sigfússon.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert