Stærsti lax sumarsins í Víðidalsá

Jakob Bjarnason með stærsta fiskinn úr Víðidalsá í sumar. Hann ...
Jakob Bjarnason með stærsta fiskinn úr Víðidalsá í sumar. Hann tók rauðan Frigga og mældist laxinn 102 sentímetrar. Ljósmynd/Aðsend

Stærsti lax sumarsins í Víðidalsá veiddist fyrr í dag. Fiskurinn mældist 102 sentímetrar og er fyrsti laxinn í sumar í ánni sem nær að rjúfa 100 sentímetra múrinn. Það var Jakob Bjarnason sem setti í fiskinn í veiðistaðnum Silungabakka, ofarlega á neðsta veiðisvæði Víðidalsár. Það vakti athygli Jakobs að fiskurinn tók verulega langt fyrir ofan hefðbundinn tökustað í Silungabakka. Ummál hængsins mældist 50 sentímetrar.

„Þetta var fjörutíu mínútna viðureign. Ég var með bremsuna vel herta en tók samt ekkert voðalega fast á honum. Ég var bara með fimmtán punda taum og tók mér því tíma í þetta. Ég leiddi hann inn á dautt vatn fyrir innan hólma sem er í ánni og gat sporðtekið hann þar,“ sagði Jakob í samtali við Sporðaköst skömmu eftir að hann landaði stórlaxinum.

Kjafturinn á þessum fiski er engin smásmíði og tignarlegur krókurinn ...
Kjafturinn á þessum fiski er engin smásmíði og tignarlegur krókurinn er haustlegur. Ljósmynd/Aðsend

„Hann negldi fluguna af ákefð og það er nokkuð skrítið því áin er ekki nema tveggja gráðu heit og lofthiti er ekki nema tvær gráður. Það sat vel í honum og tveir krókar voru á kafi.“

Jakob var að vonum kampakátur og fiskurinn fór í kistu svo að hann mun nýtast Víðidalsá áfram. Þetta er enn einn stórlaxinn sem tekur fluguna Frigga og að þessu sinni rauðan og hann var ein tomma.

„Ég þarf ekki að veiða meira í þessum túr,“ hló Jakob þegar honum honum var óskað til hamingju með fiskinn.

Sendu ábendingu um frétt
eða myndir á veidi@mbl.is
mbl.is