60 laxar á 10 tímum á 4 stangir

Stórlax úr Stóru-Laxá. Veiðin síðasta sólahringinn hefur verið með ólíkindum. …
Stórlax úr Stóru-Laxá. Veiðin síðasta sólahringinn hefur verið með ólíkindum. Sextíu löxum landað á fjórar stangir. Ljósmynd/Árni Baldursson

Stóra-Laxá er ein af þeim ám sem býður upp á ævintýri á haustin, þegar laxinn gengur upp úr Hvítá af Iðunni. Oft eru þessar göngur kraftmiklar og veiðimenn í Stóru gera hreinlega mokveiði. Veiðimenn sem eru á svæði eitt og tvö í Stóru-Laxá lentu í mokveiði síðdegis í gær. Þeir lönduðu 35 löxum á fimm klukkutímum á fjórar stangir. „Það var allt í keng allan tímann,“ sagði Egill Guðjohnsen tannlæknir í samtali við Sporðaköst í dag. Hann deilir stöng með starfsbróður sínum og veiðifélaga – Tóta tönn. Þeir félagar lönduðu átján löxum í gær. Sá síðasti sem þeir lönduðu var jafnframt sá stærsti, 103 sentimetra hængur sem tók í Bergsnös. „Þar eru alltaf stórir,“ segir Egill. Það var einmitt hann sem setti í hann í ljósaskiptunum á Collie Dog-túbu. „Ég var þrjú kortér með hann og það var komið svartamyrkur þegar við lönduðum honum.“ Myndin sem fylgir með af Agli með stórlaxinn mun seint vinna til verðlauna sem veiðimynd en gefur þó hugmynd um hversu stór fiskurinn var og hversu dimmt var orðið. Egill Guðjohnsen er hluti af þessari mynd sem félagi hans tók.

Egill segir þetta hafa verið mikið ævintýri. „Við komum til dæmis í Ytri-Hvamm og þar tókum við tíu laxa í beit og misstum fjóra.“

Egill segir að í gær hafi tvær stórar göngur komið upp í Stóru-Laxá. Í dag var áin hratt fallandi og vildi Egill meina að við þær aðstæður minnkaði veiðin á svæði 1 og 2 og fiskurinn gengi áfram upp ána. Meira en helmingurinn af þeim fiski sem þeir félagar Egill og Tóti lönduðu voru tveggja ára fiskar.

Síðast þegar Tóti tönn var í stóru viðtali sagði hann að alls væri hann búinn að veiða 20.511 laxa. Aðspurður hver talan væri núna svaraði hann: „Ég á eftir að leggja saman.“

Veiðin í morgun var áfram góð og lönduðust 25 laxar fyrir hádegi. Þeir byrjuðu ekki að veiða fyrr en klukkan átta í morgun og er hollið því komið með sextíu laxa á fjórar stangir á tíu klukkutímum. Egill segir að oft hafi veiðin verið góð á þessum tíma í Stóru-Laxá en hann man ekki eftir svona mokveiði.

Þessi veiðimynd vinnur seint til verðlauna, en fyrir þá sem …
Þessi veiðimynd vinnur seint til verðlauna, en fyrir þá sem sjá vel má greina að hér er Egill með 103 sentimetra hænginn úr Bergsnös. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert