Vatnamótin gefa vel

Vænn sjóbirtingur úr Vatnamótunum á dögunum.
Vænn sjóbirtingur úr Vatnamótunum á dögunum. Ólafur Guðmundsson

Góð veiði hefur verið í svokölluðum Vatnamótum í Skaftá í Vestur-Skaftafellssýslu í sumar og hafði Skaftárhlaupið fyrstu vikuna í ágúst lítil áhrif þar á að sögn kunnugra. 

Í samtali við Ragnar Johnsen á Hörgslandi sem heldur utan um veiðirétt á svæðinu kom fram að veiðst hafa yfir 1.600 sjóbirtingar frá því veiði hófst í byrjun í apríl. Veitt verður til 10. október, en veiðisvæðið er í vatnamótum Skaftár við Breiðbalakvísl, Hörgsár og Fossála. 

Vorveiðin í apríl og maí sló öll fyrri met að sögn Ragnars og var um 900 fiskum landað á þeim tíma sem er um tvöföldun á venjulegri veiði í apríl og maí. Á þeim tíma er sleppiskylda á öllum fiski sem Ragnar segir að komi sér vel seinni hluta sumars þegar birtingurinn gengur aftur upp í árnar. 

Þá hafa að auki óvenjumargir stórfiskar komið á land nú í sumar, margir yfir 90 cm og hellingur yfir 80 cm. Ragnar kvaðst sjálfur hafa landað einum 86 cm birtingi fyrir stuttu sem hefði vegið rúm 8 kíló. Til viðbótar við birtinginn veiðast alltaf einhverjir laxar og bleikja. 

Aðspurður hvort Skaftárhlaupið fyrr í sumar hefði haft einhver veruleg áhrif á veiðina sagði hann svo ekki vera. Mestur hamagangur í kringum það hefði verið í fjölmiðlamönnum og hlaupið lítil áhrif haft á veiðina. Besta veiðin væri alltaf í skilunum þar sem bergvatnið og jökulvatnið renna saman og þau skerpast í þessum hlaupum og færast nær landi og því í raun auðveldara um vik að veiða svæðið. 

Hins vegar gæti aurinn sem fylgir slíkum hlaupum verið leiðinlegur en hann hefur mun meiri áhrif niðri á svokallaða Hólmasvæði sem er neðar í Skaftá og Ragnar er einnig með á sínum snærum. Ekki hefði verið farið mikið þangað í sumar en sennilega á milli 100 og 150 sjóbirtingar veiðst þar í það heila. Besti veiðitíminn á Hólmasvæðinu væri undir lok júlí og byrjun ágúst en sjóbirtingurinn stoppar yfirleitt stutt við á þessu svæði á leið sinni ofar í vatnakerfið. 

Þá heldur Ragnar einnig utan um Hörgsá sem er rennur út í Breiðbalakvísl skammt frá Hörgslandi sem er undir litlu veiðiálagi og er það með vilja gert að sögn Ragnars. Hún er því ekki mikið stunduð en þeir sem fara fá þó flestir fiska og er það þá aðallega uppi í torfærum gljúfrunum ofan þjóðvegarins. Veiðimenn sem þar voru um daginn slógust lengi við stórfisk við erfiðar aðstæður sem sleit að lokum og sögðu fiskinn hafa verið langt yfir 20 pund.

Fallegur birtingur úr Vatnamótunum.
Fallegur birtingur úr Vatnamótunum. Ólafur Guðmundsson
mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert