Hrun í laxveiði í Dee í Skotlandi

Sjaldséð sjón við ána Dee í Skotlandi. Árni Baldursson sleppir …
Sjaldséð sjón við ána Dee í Skotlandi. Árni Baldursson sleppir hér einum af þeim þremur löxum sem hann hefur veitt á tólf dögum. Veiðin er ekki svipur hjá sjón. Ljósmynd/Aðsend

Áin Dee í Skotlandi er ein af nafntogaðri laxveiðiám á Bretlandseyjum. Árni Baldursson hefur veitt þar í þrjá áratugi og hefur aldrei fyrr lent í jafn lélegri veiði. „Það eru að koma fjórir laxar á dag í allri ánni og veitt er á yfir hundrað stangir. Ég er búinn að landa þremur á tólf dögum.“

Hann segir eina skýringuna vera það mikla óveður sem gerði fyrir fimm árum þegar fellibylurinn Frank reið yfir og olli mikilli eyðileggingu í dalnum sem Dee fer um. Og margir hafi óttast að áhrifin af þeim hamförum kæmu fram næstu árin. Dee er gríðarlöng eða yfir hundrað kílómetrar. „Þetta er samt ekki alls staðar svona slæmt. Þannig er Spey til að mynda miklu betri en í fyrra og líka árnar norður af Inverness eru ágætar.“

Veiðin fallið um 75%

Fjórir laxar á dag úr Dee. Hvernig væri að vera veiðileyfasali heima á Íslandi með þær tölur? 

Árni hlær stundarhátt. „Það myndi þýða að allur Borgarfjörðurinn og norður í Miðfjörð væri að gefa fjóra laxa á dag. Það væri allt Vesturlandið og hluti af Norðurlandinu. Þetta er enn alvarlegra þar sem nú erum við að komast á besta tímann hér í Dee. Á þessum tíma er þokkaleg veiði hér 120 laxar á viku. Það er ekkert meira en þokkalegt. Nú er vikan ekki að skila nema 25 til 30 löxum. Þetta er algerlega steindautt og veiðin hefur fallið um 75% miðað við bara þokkalega veiði í þessari á, á þessum tíma.“

Fjórtán pund af silfri kallar Árni þessa mynd. Hann hefur …
Fjórtán pund af silfri kallar Árni þessa mynd. Hann hefur ekki fyrr lent í svo lélegri veiði í Dee og hefur þó stundað hana í þrjátíu ár. Ljósmynd/Aðsend

Árni segir menn mjög áhyggjufulla og er þar að vísa til þeirra sem starfa við ána, bæði leiðsögumanna og annarra. „Svo er þetta svo skrítið. Þessi á er nánast í bómull. Mjög vel um hana hugsað. Öllum laxi er sleppt og hér eru vísindamenn um alla bakka og vel er passað upp á allt sem tengist lífríkinu og þetta er útkoman.“

Þegar Dee var og hét var hún að skila veiði upp á átta til tíu þúsund laxa á ári. Árni segir að fyrir nokkuð mörgum árum hafi verið ráðinn nýr hópur vísindamanna til að hugsa um ána og þeir hafi byrjað á því að banna allar seiðasleppingar, hvort sem hafi verið sumaralin seiði eða gönguseiði. „Hér var miklu magni af seiðum sleppt, í alla læki og út um allt. Það eru alla vega tíu ár frá því að þessu var hætt og í kjölfarið hefur laxgengd minnkað.“ Hann segir þetta sjálfsagt eina af mörgum skýringum.

Tólf daga veiði og þremur löxum landað. Í fyrra landaði Árni fimmtán löxum á átján dögum. „Þetta er mikið hrun. Fyrir nokkrum árum var maður að fá þetta sex til sextán laxa á viku. Þannig að þetta hefur mikið þynnst út.“

„Eins og lúbarinn hundur“

Árni ætlar samt ekki að segja skilið við Dee. Hann ætlar að fara næsta ár án þess að hugsa sig um og er raunar að fara í lok mánaðarins í tíu daga í Dee. „Ég er sannfærður um að þetta á eftir að lagast. Ég ætla að trúa því. En þetta er ótrúlega erfitt núna. Maður er laminn núna. Bara eins og lúbarinn hundur.“

Hann segir heimamenn hrista höfuðið yfir laxeldisáformum á Íslandi. „Hér telja menn þessa hnignun í laxinum vera að hluta til vegna mikils laxeldis. Menn segja við mig hér að þeir trúi því ekki að við ætlum að leyfa þetta mikla laxeldi. Þið vitið ekki hvað þið eruð að taka mikla áhættu með allar þessar gjöfulu og fallegu laxveiðiár. Þetta er auðvitað hárrétt að við erum að taka mikla áhættu og aldrei fær þessi blessaða náttúra að njóta vafans. Við erum að opna fyrir stórfellt laxeldi og erum að netaveiða gríðarlegt magn af villtum laxi í Ölfusá og Hvítá. Við verðum að koma í veg fyrir að við förum í sama ruglið og mörg af löndum Evrópu eru að glíma við. Veiðimenn og leiðsögumenn hér eru hreinlega í sárum yfir þessu mikla laxeldi sem stundað er í Skotlandi og fátt er rætt meira.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Vatnsdalsá Erlendur veiðimaður 29. september 29.9.
101 cm Eystri-Rangá Grzegorz Loszewski 27. september 27.9.
105 cm Hvítá við Iðu Katrín Tanja Davíðsdóttir 24. september 24.9.
101 cm Víðidalsá Jón Eðvald Halldórsson 22. september 22.9.
107 cm Grímsá Jón Jónsson 22. september 22.9.
101 cm Miðfjarðará Agnar Sigurjónsson 22. september 22.9.
101 cm Hvítá við Iðu Gunnar Pétursson 20. september 20.9.

Skoða meira

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert