Stærsti lax í heimi?

Forsíða bókarinnar sem segir frá þessum risalaxi sem veiddist í …
Forsíða bókarinnar sem segir frá þessum risalaxi sem veiddist í desember 1907. Ljósmynd/Aðsend

Þann sjöunda ágúst árið 1908 birti dagblaðið Daily Mail frétt þess efnis að veiðst hefði lax sem vó 103 pund. Samkvæmt fréttinni var laxinn veiddur árinu áður við ósa árinnar Devon í Skotlandi. Ástæður þess hversu lengi dróst að segja frá þessum met fiski eru nokkrar. Það var ekki fyrr en ári síðar að skoska fiskveiðieftirlitið (e.Scottish Fishery Board) birti tilkynningu um fiskinn.

Sérfræðingur SFB fékk veður af þessum risavaxna fiski um veturinn og rannsakaði málið. Það þótti afar viðkvæmt fyrir þá sem veiddu laxinn. Sá sem stjórnaði rannsókninni í málinu fyrir hönd SFB, W.I. Calderwood lýsti því yfir að rannsókn lokinni að hann legði fullan trúnað á söguna.

Í tímaritinu The Angler´s News  28. janúar 1939 er ítarlegri frásögn af þessum fiski og einnig í tímaritinu Game Fish Records frá 1936. Þar segir meðal annars;

„Langstærsti lax sem nokkurn tíma hefur veiðst á Bretlandseyjum er risaskepna sem vigtaði 103 pund. Ég held að óhætt sé að fullyrða að þetta er stærsti lax sem veiðst hefur í heiminum, sem vitað er um. Veiðiþjófar veiddu laxinn og var málið rannsakað af Calderwood fyrir hönd skoska veiðieftirlitsins. Hann skrifaði okkur bréf um málið og sagði meðal annars,“ Svona byrjar frásögnin og því næst er vitnað í bréf Calderwoods. „Mér þætti vænt um að þú tækir fram að ég gat hvorki mælt lengd né þyngd fisksins. Veiðiþjófar veiddu hann við ósa Devon í desember. Ég ræddi við fyrrverandi hermann sem var einn þeirra þriggja sem veiddu laxinn. Ég komst í samband við hann í gegnum eiganda verslunar sem selur veiðibúnað. Ég lét þau skilaboð berast hermanninum fyrrverandi að ég myndi ekki nafngreina hann og ekki nota upplýsingarnar gegn honum á nokkurn hátt. Þegar ég ræddi svo við hann fannst mér frásögn hans trúverðug og hann virtist sannfærandi að öllu leiti. Hann sagði að þeir hefðu veitt laxinn í net og þeir hefðu allir þrír þurft að lyfta honum saman þegar búið var að losa hann úr netinu. Hann lýsti honum sem ljótasta hæng sem hann hefði nokkurn tíma augum litið og að hausinn og skoltarnir hefðu verið gríðarlega stórir. Þeir fóru með laxinn á bóndabæ í nágrenninu og fengu að vigta hann þar. Þeir gerðu sér grein fyrir því hvað þetta var sérstakur fengur og risavaxinn skepna.“

Að lokum segir Calderwood að ekki sé vitað hversu nákvæm vigtin hafi verið en það skipti ekki sköpum þó að hún væri örlítið ónákvæm. Þetta væri alltaf met fiskur. „Það eina sem ég græt yfir er að þeir skyldu ekki taka útlínur þessa mikla fisks. Hann var svo skorinn niður og honum dreift til margra í sveitinni.“

Þessa sögu er að finna í bókinni „The Domesday book of Giant Salmon“ eftir Fred Buller og var hún gefin út árið 2007. Rétt er að taka fram að um er að ræða ensk pund.

mbl.is