Lönduðu 52 fiskum á bilinu 15 til 25 pund

Rafn Valur Alfreðsson með breska veiðimanninum Angus í Rio Grande ...
Rafn Valur Alfreðsson með breska veiðimanninum Angus í Rio Grande í Argentínu. Tuttugu punda sjóbirtingur úr þessari mögnuðu á. Um 70 þúsund fiskar ganga árlega í hana. Ljósmynd/Aðsend

Hópur Íslendinga stundar árlega veiði í Rio Grande í Argentínu. Þar er ekki óalgengt að setja í og landa 20 punda sjóbirtingi. Um 70 þúsund birtingar ganga í ána árlega og hlutfall af stórfiski er hátt. Íslenski veiðihópurinn lenti í magnaðri veiði í síðasta mánuði. Lönduðu tæplega níutíu fiskum á sex dögum á sex stangir. Af því voru tólf fiskar tuttugu pund eða stærri og stærsti 25 pund.

Rafn Valur Alfreðsson leigutaki Miðfjarðarár skipuleggur ferðir niður til Argentínu fyrir hópa, í gegnum félag sitt FHD ehf., sem stendur fyrir Fishing and Hunting Destinations. Aðspurður viðurkennir Rafn að þetta sé langt og mikið ferðalag fyrir íslenska veiðimenn.

„Ég var að fara þarna í sautjánda skiptið núna í vetur. Fyrst flugum við til London og svo tók við fjórtán tíma beint flug til Buenos Aires í Argentínu. Því næst er það um þriggja til fjögurra klukkustunda flug innanlands í Argentínu. Svo taka við sex dagar í veiði og ef vel stendur á flugi þá nær maður stundum upphitunarvakt í byrjun.“

Veitt fram í svartamyrkur

Veiðidagurinn byrjar með morgunmat í veiðihúsinu klukkan átta og klukkustund síðar er haldið til veiða. Veitt er til klukkan eitt og svo er hlé fram til fjögur eða fimm og veitt fram í kolsvartamyrkur sem er á bilinu tíu til ellefu. „Við veiðum alveg fram í svartamyrkur og þá kemur oft töfrastundin. Maður er kannski búinn að veiða hyl og verður ekki var við fisk. En um leið og sólin sest þá skyndilega fara þeir að velta sér og þá er fiskur um allt. Þá gerist það gjarnan að allir eru með á í einu.“

Rafn hefur veitt 22 punda sjóbirting í Rio Grande. Veiðifélagi hans Jóhann Birgisson setti í og landaði 25 punda sjóbirtingi í síðustu ferð. „Þetta eru svakalegir fiskar,“ segir Rabbi. Hann ber viðureign við slíkan fisk saman við tuttugu punda lax heima á Íslandi; „Þeir endast ekki eins lengi. Sjóbirtingurinn getur algerlega sturlast í byrjun og strikar svakalega og stekkur. Ef þú lifir af fyrstu þrjár fjórar mínúturnar áttu góðan möguleika á að landa honum. En það er oftast sem þeir missast á fyrstu mínútunum.“

Stærðar birtingur hreinsar sig upp úr. Þeir eiga það til ...
Stærðar birtingur hreinsar sig upp úr. Þeir eiga það til að taka svaka stökksyrpur og miklar rokur. Ljósmynd/RVA

Tvíhendur og switch-stangir

Rafn segir erfitt að bera þetta saman við sjóbirtingsveiðar á Íslandi. „Þarna er miklu meira af fiski og hátt hlutfall stórfiska. Oft er besti tíminn hérna heima þegar komið er fram í október. Dagarnir orðnir stuttir og allra veðra von. Þarna er þetta meira eins og þú sért að veiða á Íslandi í ágúst. Þar er kannski aðalmunurinn.“

Þeir félagar nota alls konar græjur við veiðarnar, auðvitað fer það mikið eftir aðstæðum og veðri. „Mest eru við að nota tvíhendur og switch-stangir. Mikið 11 og hálft fet upp í fjórtán feta tvíhendur. Þarna er mikið notaður sökkendi. En til dæmis eins og í ár var mjög lítið vatn, sennilega það minnsta sem ég hef séð og þá vorum við bara með einhendur og flotlínur og púpur. Veiddum andstreymis og með tökuvara.“

22 punda birtingur kemur á land í Rio Grande. Rafn ...
22 punda birtingur kemur á land í Rio Grande. Rafn Valur Alfreðsson með tvíhendu. Ljósmynd/RVA

60 birtingar - meðalþyngd 12 pund

Það hafa verið mörg skemmtileg augnablik í þessum ferðum. „Ein skemmtilegasta vika sem ég hef átt þarna þá hittum við á ána í fullkomnum aðstæðum. Þá vorum við mest að veiða á flotlínur og litlar laxaflugur. Night hawk og Green but og slíkar flugur. Þá fengum við Jóhann félagi minn einhverja sextíu birtinga í túrnum og megnið af því var yfirborðsveiði. Meðalþyngdin var tólf pund.“

Upphaf þessara veiða má rekja til þess að breskir veiðimenn vildu koma sér upp sportveiði í Argentínu. Þeir fluttu út bæði hrogn og seiði og var þeim sleppt í Rio Grande. Sjálfsagt hefur enginn átt von því hversu vel urriðinn spjaraði sig og sem dæmi þá ganga um sjötíu þúsund birtingar í ána árlega. Öllum fiski er sleppt og hefur það verið þannig um áratugaskeið. Fjölmörg veiðihús og veiðisvæði eru við Rio Grande. Verðlagið er mjög misjafnt og eftir því sem kemur ofar í ána verða leyfin ódýrari. Það stafar fyrst og fremst af því að megnið af fiskinum heldur sig neðarlega í ánni.

Jóhann Birgisson með 25 punda sjóbirting úr síðustu ferð þeirra ...
Jóhann Birgisson með 25 punda sjóbirting úr síðustu ferð þeirra til Argentínu. Báðir skælbrosandi. Ljósmynd/RVA

Rafn segir að verðlagið sé svipað og í þokkalegri laxveiðiá á Íslandi á góðum tíma, en ferðakostnaðurinn er drjúgmikill. Þar gildir að panta snemma og ná hagstæðum verðum í flugið.

Síðasta ferð hópsins til Rio Grande gaf ótrúlega veiði. „Við lönduðum 85 fiskum á sex stangir. Þarf voru tólf fiskar yfir tuttugu pund og fimm 19 pundarar og 35 fiskar frá 15 til 19 pund. Menn sjá stærri fiska þarna og það er farið að gerast upp á síðkastið að menn eru að landa sjóbirtingum um og yfir 30 pund.“

Rafn var að hugsa um að hafa þetta síðustu ferðina sína í bili. „Það breyttist. Á öðrum degi var ég farinn að skipuleggja næstu ferð,“ hlær Rabbi. Hann segir þessa veiði vera einhverja þá mögnuðustu sem hann upplifir á hverju ári.

Sendu ábendingu um frétt
eða myndir á veidi@mbl.is
mbl.is