Mögnuð veiði á „torfunum“ og í Soginu

Óskar Bjarnason, einn af Villimönnunum með 60 sentímetra hæng sem …
Óskar Bjarnason, einn af Villimönnunum með 60 sentímetra hæng sem veiddist við Eiríksklett á Staðartorfu. Gamall hængur með mikið af baráttusárum. Ljósmynd/EPV

Þó svo að laxveiðin byrji ekki af þeim krafti sem menn vonuðust eftir þá er víða verið að gera magnaða silungsveiði, bæði í urriða og bleikju.

Hörkuveiði hefur verið á mörgum af þeim urriðasvæðum sem Laxá í Þingeyjarsýslu hefur upp á að bjóða. Þeir félagar í Villimönnum voru nýlega á Staðar- og Múlatorfu í Aðaldalnum.

„Við vissum í raun afskaplega lítið um, Staðar- og Múlatorfu í Laxá í Aðaldal. Þar gerðum við frábæra veiði í skítakulda og snjókomu á köflum. Vegna veðurs var ástundunin ekki gríðarleg en við náðum samt að landa 65 urriðum, frá 45-60 sentímetrar. Flestir voru rétt rúmlega fimmtíu sentímetrar, þykkir og flottir. Mest veiddum við andstreymis á púpur þó svo að einhverjir urriðar létu glepjast á straumflugu, þá aðallega hinn gamla góða Rektor, sem er í miklu uppáhaldi hjá okkur Villimönnum,“ sagði Elías Pétur í samtali við Sporðaköst.

Þær púpur sem gáfu þeim félögum hvað best voru Pheasant tail, Squirmy wormy og svo ný fluga sem er hönnuð af Elíasi Villimanni sem þeir kalla Maggotinn, sem er nokkurskonar lirfulíki.

Ríkarður Hjálmarsson kominn í samband við hrausta bleikju.
Ríkarður Hjálmarsson kominn í samband við hrausta bleikju. Ljósmynd/Aðsend

„Fiskarnir þarna voru óhemju sterkir og börðust af miklum ofsa og létu stangirnar okkar vinna alla leið niður í kork. Þessi tvö svæði komu okkur mjög svo á óvart og að okkar mati eru þau ekkert síðri en svæðin fyrir ofan virkjun, Laxárdalur og Mývatnssveit. Þetta eru ódýrari svæði og án veiðihúss en við mælum með að sem flestir prófi þau, ástundunin þarna hefur ekki verið mjög mikil síðustu ár. Síðan þegar líða fer á sumarið dreifir fiskurinn sér vel um svæðið og þá geta torfurnar orðið að algjörum suðupotti uppítaka og algjör þurrfluguveiðiparadís.“

Sogsbleikjan á uppleið

Sogið er almennt kennt við laxveiði en þetta mikla fljót geymir einnig bleikjustofn sem getur orðið mjög stórvaxinn. Síðari ár hefur bleikjan verið í minna magni og því er einkar ánægjulegt að sjá að margir hafa verið að gera þar góða veiði og oftar en ekki er um ræða stórar og kraftmiklar bleikjur. Flestar fréttir hafa borist af Ásgarðssvæðinu en landeigandi þar bauð mönnum að skreppa þegar voru lausir dagar. 

Dæmigerð Sogs bleikja. Það er ánægjuefni að stofninn virðist vera …
Dæmigerð Sogs bleikja. Það er ánægjuefni að stofninn virðist vera að taka vel við sér og margir hafa gert góða veiði þar síðustu daga og vikur. Ljósmynd/Aðsend

Flestar bleikjurnar hafa verið teknar á andstreymis veiði með púpum. Ríkarður Hjálmarsson er einn þeirra sem hefur gert góða veiði í Ásgarðinum. „Þetta var alveg magnað. Við vorum búnir að taka nokkrar mjög flottar bleikjur og svo var ég að vaða í land og stakk símanum ofan í bara svona af rælni. Við fórum upp í bíl og pökkuðum saman. Svo áður en við lögðum af stað þá kíkti ég á vídeóið í símanum. Þar var bara bunki af bleikju við lappirnar á mér. Við gölluðum aftur og tókum þrjár á smá tíma," sagði Ríkarður í samtali við Sporðaköst.

Ekki er óalgengt að fá á þessum slóðum upp í fimm punda bleikjur og jafnvel stærri. Bíldsfellslandið gegnt Ásgarði er einnig mjög skemmtilegt bleikjusvæði.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
104 cm Svalbarðsá Viggó Júlíusson 6. júlí 6.7.
104 cm Nesveiðar Hugo 29. júní 29.6.
104 cm Nesveiðar Aron Pálmarsson 27. júní 27.6.
107 cm Nesveiðar Hilmar Hafsteinsson 25. júní 25.6.
101,5 cm Laxá í Kjós Guðjón Þ. Guðjónsson 23. júní 23.6.
101 cm Blanda Pétur Pálsson 21. júní 21.6.
101 cm Víðidalsá James Murray 20. júní 20.6.

Skoða meira