Smálaxagöngur mættar í Þjórsá

Smálaxinn er mættur í Þjórsá. Lax númer 200 mun koma …
Smálaxinn er mættur í Þjórsá. Lax númer 200 mun koma á land í dag. Ljósmynd/Aðsend

Veiðin í Urriðafossi hefur verið góð frá opnun og að meðaltali eru að koma á land sextán laxar á hverjum degi á fjórar stangir. Laxi númer tvö hundruð verður landað í dag. Smálax er farinn að sjást í töluverðu magni og er viðbúið að veiðin aukist enn frekar næstu daga þegar straumur fer stækkandi og nær hámarki um helgina.

Stefán Sigurðsson hjá Iceland Outfitters sem leigir veiðiréttinn í Urriðafossi og raunar mun víðar í Þjórsá segir að laxagengd og veiði sé með mjög líkum hætti og hin fyrri tvö ár sem hann hefur annast svæðið.

Veiðimenn hafa verið að setja í nokkra mjög stóra fiska í Urriðafossi þannig var sett í mikinn fisk á flugu í veiðistaðnum Huldu, í gær sem slapp. Annar mjög stór fiskur tók fluguna í Lækjarlátri en hann fór án þess að menn sæju hann nokkurn tíma.

´Sigurður Sigurðsson, kenndur við Raflax, landaði þessum fiski klukkan 7:15 …
´Sigurður Sigurðsson, kenndur við Raflax, landaði þessum fiski klukkan 7:15 í morgun. Þeir félagar sáu fiska ganga upp fossinn og smálaxinum fjölgar. Ljósmynd/Aðsend

Laxinn er farinn að ganga af krafti upp fyrir Urriðafoss og ljóst að fleiri veiðisvæði eru að fara í gang. Veiðimenn í gær lönduðu tuttugu og tveimur löxum, þar af var tveimur sleppt.  

Blanda, Aðaldalur og Hítará

Það veit á gott, sérstaklega fyrir þær ár sem eru þjakaðar af þurrkum þessa fyrstu daga veiðitímans. Menn hafa sett spurningamerki við laxagöngur í stóru árnar í Borgarfirði. Svör við slíkum spurningum fást ekki fyrr en rignir og fiskur getur tekið strauið upp þessar ár. Þó lofar mjög góðu að í Hítará hefur sést töluvert magn af laxi og er ein skýringin þar að lónið sem myndaðist við skriðufallið í fyrra er að tæmast og fóðrar Hítará þar til. Einnig koma nú Grjótá og Tálmi ofar í Hítará og styrkir það vatnsfallið.

Þrjátíu og sjö laxar voru komnir í bók í Blöndu í gærkvöldi. Þar eins og í Þjórsá hafa menn verið að setja í gríðar stóra fiska sem þeir hafa ekkert ráðið við. Að sögn Jóhanns Davíðs Snorrasonar, markaðs- og sölustjóra hjá Lax-á, er Blanda óvenju vatnslítil og því stoppar fiskur stutt á neðsta svæðinu og gengur áfram upp. Meðal veiði á dag eftir opnun er um fjórir fiskar. Opnunarhollið skilaði 22 löxum sem er fínasta opnun.

Jóhann Davíð Snorrason með fallegan lax úr Blöndu. Hann missti …
Jóhann Davíð Snorrason með fallegan lax úr Blöndu. Hann missti mjög stóran fisk á Breiðunni. Sá hreinsaði sig algerlega og áætlar Jóhann að hann hafi verið tuttugu pund. Ljósmynd/Lax-á

Laxinn er mættur í Laxá í Aðaldal. Það staðfesti Jón Helgi Björnsson á Laxamýri í samtali við Sporðaköst. Hann sá nýverið fjóra laxa í Kistukvísl. Þrír voru við Staurinn og hann sá einn í Sjávarholu. „Einn þessara fiska var hundrað plús. Svakalegur fiskur. Þá hef ég heyrt að menn hafi séð fiska stökkva við Eskey og á Stíflunni. Annars er viðbúið að hann gangi hratt fram. Það er nóg vatn hér hjá okkur.“ Veiði í Laxá hefst þann tuttugasta eða eftir rúma viku.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Sogið Kristinn Örn 14. júlí 14.7.
100 cm Nesveiðar Grétar Þorgeirsson 12. júlí 12.7.
100 cm Blanda Tom Tynan 9. júlí 9.7.
105 cm Blanda Nigel Hawkins 8. júlí 8.7.
104 cm Svalbarðsá Viggó Júlíusson 6. júlí 6.7.
104 cm Nesveiðar Hugo 29. júní 29.6.
104 cm Nesveiðar Aron Pálmarsson 27. júní 27.6.

Skoða meira