Synti út í Norðurá og náði laxinum

Elísabet Helgadóttir vildi ekki missa þennan. Hún synti eftir honum …
Elísabet Helgadóttir vildi ekki missa þennan. Hún synti eftir honum og brosir hér kampakát. Ljósmynd/Stefán

Eitthvert magnaðasta veiðimyndband sem sést hefur í langan tíma var birt á Youtube nýlega. Það var tekið upp í Norðurá fyrir þremur árum og þar sést kona berjast við lax í Hvararhyl í Norðurá. Flugulínan fer fyrir grjót og Elísabet Helgadóttir veiðikona og mannauðsstjóri hjá Icelandair, ætlaði ekki að missa þennan fisk. Óvætt var út á staðinn þar sem flugulínan festist. Hún dó ekki ráðalaus og óð yfir ána og reif sig þar úr öllum fötum þar til hún var á nærklæðunum einum saman. Þá fór hún í vöðluskóna og óð út í til að losa línuna. Það gekk eftir en við tók sundsprettur á eftir fiskinum og svo til að komast í land. Þar beitti hún baksundi og hélt flugustönginni upp úr ánni. Sporðaköst heyrðu í þessari valkyrju vegna myndbandsins.

„Þetta er bara keppnisskapið í manni. Það var lítil veiði og þegar maður er loksins búin að setja í fisk þá er maður ekkert að fara að gefa það eftir. Maður klárar dæmið.“

En hversu kalt var þetta?

„Þetta var mjög kalt. Mjög. Ég myndi ekki ráðleggja neinum að reyna að leika þetta eftir. Sérstaklega ekki börnunum mínum.“

Eiginmaður Elísabetar, Stefán Örn Pétursson birti myndbandið í tilefni afmælisdags Elísabetar. „Já ég er mjög sátt við að hann birti þetta.“ Hún hlær.

„Við förum einmitt í Norðurá í sumar og ég á nú ekki von á að toppa þetta. Hann er miklu vanari veiðimaður en ég enda heyrist það að hann skipar mér fyrir og lóðsar mig í gegnum þetta. Þetta var raunir í eitt af fáumst skiptum sem ég fer að hans fyrirmælum.“

Hann var alveg harður við þig.

Hún hlær hátt. „Já mér fannst það nefnilega líka, aðallega eftir á þegar ég horfði á myndbandið. En þetta var mín hugmynd og þarna treysti ég algerlega á hann. Ég sannfærði hann um að þetta væri það eina rétt til að missa ekki fiskinn, sem tók Black Brahan númer fjórtán.“ Stefán tók upp myndbandið samhliða því að halda á stönginni fyrir Elísabetu þar til hún var klár í slaginn. Óskar Páll Sveinsson klippti myndbandið.

Varstu aldrei hrædd á meðan að á þessu stóð?

„Jú en ég er svolítill spennufíkill en það var þarna augnablik þegar ég var komin vel út í hylinn og var að svissa yfir í baksundið að þá var straumurinn orðinn meiri og þá varð ég hrædd. Það var bara í smástund og svo náði ég stjórn á aðstæðum og þetta hafðist. Það hjálpaði ekki við baksundið að vera í vöðluskónum.“

Elísabet varð aflahæst í hollinu og þar gerði þessi fiskur gæfumuninn. Hér er linkur á myndbandið og sjón er sögu ríkari.

https://youtu.be/7IRvAWGd9Ek

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
102 cm Sogið Kristinn Örn 14. júlí 14.7.
100 cm Nesveiðar Grétar Þorgeirsson 12. júlí 12.7.
100 cm Blanda Tom Tynan 9. júlí 9.7.
105 cm Blanda Nigel Hawkins 8. júlí 8.7.
104 cm Svalbarðsá Viggó Júlíusson 6. júlí 6.7.
104 cm Nesveiðar Hugo 29. júní 29.6.
104 cm Nesveiðar Aron Pálmarsson 27. júní 27.6.

Skoða meira