Fyrstu laxarnir úr Kjós og Miðfirði

Rafn Valur Alfreðsson leigutaki í Miðfirði með fallegan tveggja ára …
Rafn Valur Alfreðsson leigutaki í Miðfirði með fallegan tveggja ára lax sem veiddur var í neðri Austurá í morgun. Ljósmynd/Aðsend

Tíu laxar hafa veiðst í opnunarhollinu í Miðfjarðará, eftir þrjár vaktir eða einn og hálfan dag. Þeir hafa flestir komið úr Austurá. Skilyrði eru mjög krefjandi, lítið vatn og glampandi sól. Veiðimenn á silungasvæðinu, neðst í ánni urðu varir við nokkurt magn af fiski að ganga báðar kvíslar þrátt fyrir þessar aðstæður. 

Vegna aðstæðna gripu menn til þess ráðs að stytta veiðivaktirnar og hafa þær ekki nema fjóra tíma, veiða eingöngu á mjög smáar flugur og fara bara eina bunu yfir hvern hyl. „Þetta er tilraun til að halda lífi í þessu á meðan ástandið er svona erfitt. En menn sáu líka laxa niður í Miðfjarðará sem voru að ganga milli veiðistaða og við urðum varir við fiska á þó nokkrum stöðum,“ sagði Rafn Valur Alfreðsson leigutaki í samtali við Sporðaköst. Einungis er veitt á sex stangir í opnuninni en þeim fjölgar þegar líður á sumar. Fiskar sáust í Vesturá, bæði í Hlíðarfossi og Kollafossi og einnig settu menn í laxa í sjálfri Miðfjarðaránni og misstu.

Erlendur veiðimaður með fyrsta laxinn úr Laxá í Kjós í …
Erlendur veiðimaður með fyrsta laxinn úr Laxá í Kjós í sumar. Þessi tók svarta Frances í Klingenberg. Áður hafði hann misst þrjá tveggja ára fiska. Ljósmynd/Hreggnasi

Í Laxá í Kjós hófst veiði í gærmorgun í glampandi sól og fljótlega var kominn 23 stiga hiti. „Já, já, þetta er mjög erfitt og krefjandi. Við erum búnir að sjá laxa á nokkrum stöðum, kannski hátt í þrjátíu stykki. Um leið og dregur fyrir og kólnar kannski aðeins þá ætti þetta að koma,“ sagði Haraldur Eiríksson markaðsstjóri Hreggnasa sem er með ána á leigu. Lax hefur sést í Bugðu sem er hliðará Laxár í Kjós og kemur úr Meðalfellsvatni. Nokkuð er af laxi í Kvíslarfossi og fiskur hefur sést fram í Poka.

John Dawson með ekta vorfisk. Miðfjarðará er mjög krefjandi við …
John Dawson með ekta vorfisk. Miðfjarðará er mjög krefjandi við þessar aðstæður og hver fiskur er sigur. Ljósmynd/Aðsend

Fyrsti laxinn í Kjósinni kom á land í dag og var það erlendur veiðimaður sem landaði honum á svarta Frances í veiðistaðnum Klingenberg og mældist hann 84 sentímetrar.

Einungis er veitt á fjórar stangir í Kjósinni í opnunarhollinu. Athygli hefur vakið að fiskur er að ganga Höklana, sem er neðsta svæði Kjósarinnar, við þessar aðstæður. Haraldur Eiríksson er sannfærður um að þegar skilyrði batna geta spennandi hlutir gerst.

Jóhann Birgisson með dæmigerðan opnunarfisk. 85 sentímetrar er algeng stærð.
Jóhann Birgisson með dæmigerðan opnunarfisk. 85 sentímetrar er algeng stærð. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Nesveiðar Grétar Þorgeirsson 12. júlí 12.7.
100 cm Blanda Tom Tynan 9. júlí 9.7.
105 cm Blanda Nigel Hawkins 8. júlí 8.7.
104 cm Svalbarðsá Viggó Júlíusson 6. júlí 6.7.
104 cm Nesveiðar Hugo 29. júní 29.6.
104 cm Nesveiðar Aron Pálmarsson 27. júní 27.6.
107 cm Nesveiðar Hilmar Hafsteinsson 25. júní 25.6.

Skoða meira