Fer rólega af stað í Hofsá

Jónas Jónasson hampar fyrsta laxinum úr Hofsá í sumar við ...
Jónas Jónasson hampar fyrsta laxinum úr Hofsá í sumar við Efri-Foss. Ljósmynd/Aðsend

Hofsá í Vopnafirði opnaði í morgun þremur dögum fyrr en venja hefur verið fyrir síðustu árin. Veiðin var róleg þennan fyrsta dag.

Að sögn Jóns Magnús­ar Sig­urðsson­ar á Ein­ars­stöðum og for­manns veiðifé­lags ár­inn­ar veiddist einn lax í morgun og var það 83 cm hrygna úr Efri-Fossi sem tók Sunray Shadow-túpu hjá Jónas Jónassyni fiskifræðingi.

Því til viðbótar hefðu menn sett í lax í Lindinni á svæði þrjú og svo ítrekað reist stóran lax í Öskumelshyl sem er á neðsta svæði laxasvæðisins.

Eftir hádegið kom enginn lax á land en einhver dreki slapp eftir langan barning í Brúarhyl og svo reistu menn laxa í Nethyl. 

Jón sagði að veitt væri á fjórar stangir fyrstu dagana og nú opnaði þremur dögum fyrr en venja hefur verið síðustu árin. Lax gengi að jafnaði fremur seint í ána og það muni um hvern dag. Ljóst er þó að eitthvað er komið af laxi í ána og sagðist Jón hafa séð að minnsta kosti fjóra liggja í Efri-Fossi í gær þegar hann var að lagfæra við ána. 

Selá í næsta ná­grenni opn­ar svo næstkomandi laugardag en þar sáu menn fyrstu laxana undir lok maí í Selárfossi.

Sendu ábendingu um frétt
eða myndir á veidi@mbl.is
mbl.is