Hressist í Hítará og opnun í Stóru

Smári Rúnar Þorvaldsson með vænan fisk úr Skiphyl í Hítará.
Smári Rúnar Þorvaldsson með vænan fisk úr Skiphyl í Hítará. Ljósmynd/Hítará

Vatnsstaðan í Hítará hefur aðeins lagast eftir að nokkra rigningu gerði þar. Þetta leiddi til þess að veiðimenn í ánni hafa landað sjö löxum síðustu tvo daga. Vart varð við nokkurt magn af laxi í Hítará fyrir opnun en sá fiskur til grannt og misstu menn tíu fiska áður en þeim fyrsta var landað. Það er því mikil breyting þegar fiskur er farinn að taka og allt að hressast bæði menn og laxar.

Af þessum sjö löxum sem veiðst hafa síðustu daga er eru sex sem flokkast sem stórlaxar eða yfir sjötíu sentímetrar. Orri Dór leigutaki Hítarár sagði í samtali við Sporðaköst að nú liti þetta allt betur út. „Fiskur er að dreifa sér og hefur verið að sýna sig víða.“

Reynir M. Sigmunds með 84 sentímetra fisk af Pallinum í ...
Reynir M. Sigmunds með 84 sentímetra fisk af Pallinum í Stóru Laxá. Ljósmynd/Aðsend

Opnun í Stóru Laxá

Fjórða og efsta svæðið í Stóru Laxá opnaði í morgun. Tveir fiskar veiddust fyrir hádegi og var annar þeirra 84 sentímetrar og veiddur á Pallinum. Hinn var stubbur og einungis 60 sentímetrar og fékkst í Flatabúð. „Báðir tóku Sunray. Ég missti tvo til viðbótar,“ sagði Reynir M. Sigmunds í samtali við Sporðaköst. Hann sagði laxa hafa sést á nokkrum stöðu og þetta liti vel út.

Neðri svæðin í Stóru Laxá opna 1. júlí.

Sendu ábendingu um frétt
eða myndir á veidi@mbl.is
mbl.is