Laxinn ryðst upp í Norðurá

Einar Sigfússon, rekstraraðili Norðurár, segir miklar göngur í ána. Honum ...
Einar Sigfússon, rekstraraðili Norðurár, segir miklar göngur í ána. Honum er virkilega létt, viðurkennir hann. mbl.is/Golli

Eftir afar erfiða byrjun í Norðurá horfir nú allt til betri vegar. Einar Sigfússon rekstraraðili Norðurár sagði í samtali við Sporðaköst nú í morgun að fiskur væri að ryðjast upp í ána.

„Georg Gíslason landeigandi að Borgum hafði keypt þrjá daga á Flóðatangasvæðinu og fengu þau ekkert fyrsta daginn. Annan daginn fór hann með ellefu ára son sinn og komu þeir að Haugahyl, beint fyrir neðan Baulu-sjoppuna. Þeir sáu þá að hylurinn var pakkaður af laxi og var fullt af fiski að skríða inn og var hann í hundraðatali,“ sagði Einar Sigfússon. Flóðatangasvæðið gaf sex laxa þessa þrjá daga. Einar segir að rigningin sem kom hafi fyrst í stað engin áhrif haft og hvarf bara ofan í jörðina. „Nú er fiskur stökkvandi um allt og leiðsögumenn sem eru að veiða í gilinu hafa séð grúbbu eftir grúbbu mæta og synda fram hjá þeim.“

Einar viðurkennir að þungu fargi sé af sér létt. „Auðvitað trúði maður því ekki að eitthvað hefði komið fyrir okkar fisk, umfram aðrar ár. En það var farið að fara um mann. Nú held ég að spennandi dagar séu fram undan. Fiskur hefur bara safnast upp þarna niður frá og ekki lagt í súrefnislítið vatn og glampandi sólskin.“

Einar var afskaplega kátur í morgunsárið og reyndi ekki á nokkurn hátt að leyna gleði sinni. Gera má ráð fyrir svipuðum fréttum af öðrum Borgarfjarðarám í dag og á næstu dögum.

Sendu ábendingu um frétt
eða myndir á veidi@mbl.is
mbl.is