Ratcliffe dreymir um Ísland allt árið

Jim Ratcliffe með fyrsta laxinn sem landað var í Selá …
Jim Ratcliffe með fyrsta laxinn sem landað var í Selá þetta sumarið, 76 sentímetra hrygnu. Einar Falur

Laxveiði hófst í Selá í Vopnafirði í morgun og fór mjög vel af stað en gott vatn er í ánni og talsvert virðist gengið af laxi á neðsta svæði árinnar. Eins og í fyrra hóf hinn kunni breski iðnjöfur og fjárfestir Jim Ratcliffe, ríkasti maður Bretlands, veiðar ásamt börnum sínum þremur en eins og kunnugt er hefur Ratcliffe á undanförnum árum keypt margar jarðir á norðausturhluta landsins og er stór hluthafi í öllum laxveiðiánum þremur í Vopnafirði.

Sveinn Björnsson leiðsögumaður hefur háfað 76 sentímetra hrygnu hjá George …
Sveinn Björnsson leiðsögumaður hefur háfað 76 sentímetra hrygnu hjá George Ratcliffe og hann fagnar fyrsta laxi sínum í sumar. Einar Falur

Julia dóttir Ratcliffe kastaði fyrst í Fosshylinn í Selá, þar sem fjöldi laxa hefur sést síðustu daga, og tók vænn lax flugu hennar strax í fyrsta kasti. Eftir nær tuttugu mínútna tog og þegar styttist í löndun lak laxinn af er hann kenndi grunnsins. Jim Ratcliffe óð þá út í djúpan hylinn og það var sama saga, lax tók flugu hans strax. Sá lét hafa fyrir sér og sýndi lipurlega loftfimleika en að lokum landaði Ratcliffe 76 cm hrygnu. Þá veiddu synir hans, George og Sam, og fengu báðir strax laxa, 76 sm hrygnu og 70 sm hæng.

Þau fjölskyldan veiddu rólega í morgun og bara á eina til tvær stangir en gekk þó afar vel; er þau héldu í hádegismat hafði níu löxum verið landað í Fosshyl, á Fossbreiðu og í Efri-Sundlaugarhyl, 70 til 78 sentímetra löngum og athygli vakti að þeir sem tók voru allir lúsugir. Lax er því greinilega að ganga af krafti í ána.

Julia dóttir Ratcliffe kastaði fyrst í Fosshylinn í Selá og …
Julia dóttir Ratcliffe kastaði fyrst í Fosshylinn í Selá og setti strax í vænan lax sem hún þreytti í nær tuttugu mínútur en hann lak af í löndun. Faðir hennar var til aðstoðar. Einar Falur

Einar Falur Ingólfsson, blaðamaður Morgunblaðsins, fylgdist með veiðunum við Selá í morgun og ræddi við Jim Ratcliffe, sem sagði lukkulegur að byrjunin gæti vart hafa verið betri og að það væru forréttindi að fá að veiða í opnun svo góðrar veiðiár. „Og mér finnst áhugavert að sjá hvað vatnsstaðan er góð hér í Selá á meðan Vesturdalsá hér í næsta dal rennur varla, þar er ekkert vatn í farveginum. Ég hef aldrei séð hana svona rýra, þau ár sem ég hef komið til veiða,” sagði hann.

Ratcliffe kvaðst ekki geta lýst því með nægilega sterkum orðum hversu mjög hann nyti þess að vera kominn til landsins að veiða.  Hefur hann látið sig dreyma undanfarnar vikur um þessa veiðiferð?

 „Ekki bara undanfarið – mig dreymir um það allt árið að vera hér!“ svaraði hann og hló. „Þetta er dásamlegt. Síminn hringir ekki einu sinni. Og náttúran hér er einstök.”

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
103 cm Mýrarkvísl Matthías Þór Hákonarson 30. september 30.9.
103 cm Stóra Laxá Ársæll Þór Bjarnason 29. september 29.9.
101 cm Stóra Laxá Friðjón Mar Sveinbjörnsson 28. september 28.9.
100 cm Víðidalsá Nils Folmer Jörgensen 26. september 26.9.
104 cm Víðidalsá Þorsteinn Sverrisson 25. september 25.9.
101 cm Snæfoksstaðir Sigurður Þór Sigurðsson 23. september 23.9.
107 cm Víðidalsá Kristján Jónsson 23. september 23.9.

Skoða meira