Voru fastir saman á kjaftinum – myndir

Komnir á land og fastir saman. Green Brahan-flugan sem sá ...
Komnir á land og fastir saman. Green Brahan-flugan sem sá litli hafði tekið sat einnig föst í skolti stóra urriðans. Ljósmynd/SB

Skemmtilegt og ótrúlegt ævintýri átti sér stað í Mánafossi í Laxá á Ásum nýlega. Erlendur veiðimaður var að kasta flugu á fosshylinn og setti í lítinn urriða á fluguna Green Brahan. Hann dró fiskinn inn og rétt í þann mund sem hann ætlaði að reisa stöngina og kippa urriðanum upp á bakka réðst boltaurriða á þann litla og gerði tilraun til að gleypa hann. Sú tilraun mistókst en stóri urriðinn festist á flugunni og má segja að þeir hafi hangið saman á kjöftunum eins og meðfylgjandi myndir bera með sér.

Þegar átti að fara að landa litla urriðanum mætti boltaurriði ...
Þegar átti að fara að landa litla urriðanum mætti boltaurriði og gerði tilraun til að gleypa hann. Ljósmynd/SB

Sturla Birgisson, leigutaki Laxár á Ásum, varð vitni að atvikinu. „Þetta var með hreinum ólíkindum og ég hélt að ég hefði séð allt í þessu,“ hló hann í samtali við Sporðaköst. „Þetta gerðist svo hratt að við urðum allir hissa. Ég, veiðimaðurinn og litli urriðinn. Við leystum úr flækjunni og slepptum þeim litla. Við vorum að gantast með það að þegar sá litli kæmi aftur í hylinn myndi hann segja þessa sögu. Sko ég var dreginn á land og þar voru tveir risar sem tóku mig upp, en þá var einn af stóru grimmu frændum okkar búinn að bíta utan um hausinn á mér. Eins og þeir myndu trúa honum.“ Sturla segir þetta hafa verið svo ótrúlegt að sjálfur hefði hann ekki trúað þessu nema hafa séð það með eigin augum.

Litli urriðinn fékk frelsi en sá stóri sem hefur án ...
Litli urriðinn fékk frelsi en sá stóri sem hefur án efa sérhæft sig í laxaseiðaáti átti ekki afturkvæmt. Þetta varð hans banabiti. Ljósmynd/SB

Laxagöngur í Ásana

Raunar eru urriðar þekktir fyrir mikla grimmd og höggva stór skörð í seiðamagn í þeim ám sem þeir halda til í. Sögur af urriðum sem éta mýs og jafnvel andarunga eru einnig vel þekktar.

Eftir erfiða byrjun í Ásunum hafa göngur af laxi skilað sér inn á hverju flóði síðustu daga og horfir ágætlega með veiði. Sturla sagði að göngur kæmu nú reglulega og þótt þetta hefði byrjað með harðlífi horfði allt betri vegar nú.

Sendu ábendingu um frétt
eða myndir á veidi@mbl.is
mbl.is