Kría bjargar stórlaxi og hugleiðingar tannlæknis

Höfðinginn úr Hafralónsá sem fjallað er um.
Höfðinginn úr Hafralónsá sem fjallað er um. Erling Ingvason
Erling Ingvason tannlæknir og veiðimaður á Akureyri er eldri en tvævetur í stangveiðinni og hefur glímt við margan stórlaxinn í gegnum tíðina. Hann er nýkominn úr veiðiferð úr Þistilfirði þar sem hann varð fyrir merkilegri upplifun í kjölfarið á glímu sinni við einn stóran.  Nánar lýsti Erling þessu í samtali við mbl.

Upphaf:

„Ég var við veiðar 3. til 6. þessa mánaðar í Hafralónsá í Þistilfirði ásamt bestu sonum (og tengdasyni) Húsavíkur.

Sjálfur er ég ekki nema húsvískur ömmudrengur en amma mín hét Helga (söngkona) Jónsdóttir Flóventssonar og telst ég því vera "Flóari". Þarna voru semsagt hreinræktaðir eðalhúsvíkingar eins og Haukur Eiðsson „Gilsari“ og skipstjóri á Karólínu ÞH100 og systursynir hans; Eiður (fyrirliði þessa liðs eða "holls" en það er held ég komið úr dönsku; hold=lið) og Bjarni Péturssynir sem eru bæði Gilsarar og frændur mínir af Flóara ætt, afkomendur Helga Flóventssonar. Einnig voru þarna "Dondararnir"; Benni Donda og synir hans þeir Guðbjartur og Þorsteinn allt miklir skíðamenn, ættaðir frá Hólmavaði í Aðaldal, Börkur Emilsson veitingamaður á Sölku og síðast en ekki síst, Benedikt Einarsson, tengdasonur Húsavíkur; Birgittu Haukdalsmaður (söngkonu).

Það hefur oft verið sagt um Þingeyinga og Húsvíkinga alveg sérstaklega, að þeir séu montnir en ég kannast ekki við það.  Þessir menn kunna að segja sögur og gera stuð í veiðihúsi og galdra fram veislumat, sannkallaðir gleðimenn og dugnaðarforkar að húsvískum hætti. Þetta var eins og nýlega og alltof snemma, brottkallaður, sameiginlegur vinur okkar flestra, sem sárt er saknað, Stefán Geir Jónsson, hefði sagt: „Þetta var illa magnað hjá okkur drengur" með húsvískum framburði.“

Veiðin:

 „...en að veiðinni, hún var svona frekar treg enda gekk hann á með skítköldum norðaustan þræsingi og rigningu, Langanesið og Þistilfjörðurinn eru fögur í sunnan blíðu en ekki svo mjög í norðaustan kaldaskít. Það var þó í það minnsta nóg vatn til að kasta flugunni á. Við lönduðum 10 löxum og misstum nokkra á stangirnar 4 á þessum 3 dögum, alla utan einn neðan "Gústa" en hann kom úr Laxhyl (númer 38) þannig að eitthvað er fiskur farinn að ganga upp fyrir Gústa.

Sjálfur fékk ég fáa ...en væna eða öllu heldur vænan með greini, því ég landaði aðeins einum. Sá var hins vegar svo fallegur að ég held að ég hafi bara aldrei annan eins lax augum litið, sakir fegurðar; hann var nýrunninn úr hafi og fagurlega silfraður, sterkbyggður og bústinn fram en spengilegur aftur, fagurlimaður með stóran sporð og ugga eins Hafralónsárfiskar eiga kyn til. Þeir hafa ræktast upp á þennan hátt vegna náttúruvals í þúsundir ára þar sem þeir þurfa að berjast upp fossa og flúðir í gljúfrum um langan veg til að komast upp á hrygningarstöðvarnar. Hver á geymir sinn sérstaka laxastofn og sumar ár fleiri en einn eins og Laxá í Aðaldal sem geymir sinn eigin stofn auk þeirra sem fara um hana í Mýrarkvísl og Reykjadalsá.

Þarna er svo sannarlega um dýrmæti að ræða sem fáir átta sig á og er nú ógnað af sjókvíaeldi á norskum laxi við strendur landsins, það er náttúruvá af mannavöldum, ekki ósvipað og innflutningur minksins reyndist á fjórða áratug síðustu aldar.“

Þá var ákveðið að skella skollaeyrum við viðvörunum, líkt og nú og láta hugmyndina um skjótfenginn gróða ráða. Afleiðingin varð sú að nú höfum við villt aðskotameindýr í íslenskri náttúru sem eirir engu sem það ræður við og herjar á villta stofna fugla og fiska."

Fiskurinn stóri:

„...en aftur að fiskinum stóra og fagra; hann gein við flugu minni í Kambshyl og lengi vel sá ég ekkert til hans en grunaði að hann væri stór þegar hann hafði ekkert gefið sig eftir 20 mínútna reipistog og leikurinn borist frekar upp en niður eftir ánni. Þá gerðist það sem okkur veiðimenn bæði dreymir um og óttumst í senn; fiskurinn tók roku yfir ána og upp að hinum bakkanum þannig að stöngin lagðist flöt og það hvein og söng í stóra hjólinu mínu með diskabremsunni sem átti að sögn sölumanns að "geta stöðvað vöruflutningalest", það gat samt ekki stöðvað þennan Hafralónsárhöfðingja þegar honum datt í hug að beita sínum stóra sporði. Ég náði svo að spila hann aftur yfir til mín og þá hélt ég að björninn væri unninn því hængar á bilinu 12-16 pund eiga kannski eina svona roku í vopnabúrinu en varla meira, 17-20 pundararnir eiga hins vegar meira inni og 20+ pundararnir hafa alltaf snúið á mig og félaga mína í Hafralónsá og skilið okkur eftir orðlausa á bakkanum með slitna línu og úrbrætt hjól...til þessa.

Ég held að það þurfi doktorspróf í laxveiði til að landa 20+ í Hafralónsá en þá vill svo til að ég er einmitt með svoleiðis þannig að þegar þessi hafði tekið roku númer tvö og straujað niður í flúðirnar fyrir neðan þá stýrði ég honum inn í lænu nokkra með dauðu vatni en þá tók við vandamál sem þeir þekkja sem hafa landað stórlaxi með tvíhendu án aðstoðar veiðifélaga og engan stað til að stranda laxinum; það er erfitt að ná laxi til sín með stóra stöng án þess að yfirspenna hana og brjóta, auk þess sem það að toga hann til sín á handfæri er mjög áhættusamt og sá stóri þarf aðeins að rykkja duglega til að slíta línuna.

Það er nú samt svo að þegar maður er með doktorspróf þá á maður ráð undir rifi hverju og ég greip það ráð að þyrla upp leðju með fætinum þannig að höfðinginn sá mig ekki og róaðist en ég sá hann og gat sporðtekið hann. Þá sá ég loksins hverslags dýrðarskepna þetta var og náði að smella af honum mynd sem lýsir því samt varla fyllilega hversu fagur hann var...og er. Til samanburðar er hægra lærið á mér sem sést á myndinni 60 cm að ummáli, enda er ég skíðamaður eins og "Dondararnir" og virðist mér fiskurinn vera svipaður...ja hann var a.m.k. vel þykkur."

 Eftirmál:

„Þegar ég var búinn að losa tvíkrækjuna úr efra gómi höfðingjans með tangarlipurð tannlæknisins, lagði ég hann til í andstreymislænu við bakka til þess að hann gæti jafnað sig vel áður en hann héldi för sinni áfram og ákvað svo að taka nokkur köst á sama veiðistað frekar en að halda áfram niður ána, þannig að ég gæti vitjað hans eftir smá stund og fullvissað mig um að honum hefði ekki orðið meint af baráttunni. Þegar ég fór frá honum var hann rólegur og stóð efsti hluti sporðsins stóra upp úr vatninu. 

Það liðu svona 10-15 mínútur þar til ég kom til baka en þá mætti mér furðuleg sjón: Tvær kríur sveimuðu yfir laxinum og virtust gera sig líklegar til að gogga í hann, þessar elskur sem ég held svo mikið upp á, ætluðu þær virkilega að fara að gogga í höfðingjann? Næst gerðist margt í einu: Höfðinginn rauk frá bakkanum út í ána með boðaföllum og ég sá að kríurnar, blessaðar, voru ekki að voma yfir laxinum heldur mink-skratta sem skreið í bakkanum yfir laxinum og stökk út í ána þegar hann sá mig og stakk hausnum upp einu sinni til að taka stöðuna áður en hann hvarf en kríurnar héldu áfram að elta skuggann af honum.

Þarna björguðu því kríurnar Hafralónsárhöfðingjanum frá verri andstæðingi en mér, ég veit svo sem ekki hvort Djöfsi hefði náð að drepa rúmlega 10 kílóa hæng en hann hefði í það minnsta náð að klóra hann og bíta þannig að undan hefði sviðið."

Lokaorð

„Nú skulum við læra af reynslunni og endurtaka ekki minka-mistökin frá 1935 og banna kvíaeldi á frjóum norskum laxi við strendur landsins, eldið skyldi aðeins leyfa í lokuðum kerfum uppi á landi. Við megum ekki láta glepjast fyrir 30 norska silfurpeninga.

Látum þennan dæmalaust fallega fisk, okkar villta Atlantshafslax Salmo Salar (stökkvarann) njóta vafans og tryggjum framtíð hans, annars mun framtíðin dæma okkur og það ekki mildilega."

mbl.is