Laxveiðin ekki svipur hjá sjón

Þetta er það sem allir eru að leita að. Veiðin …
Þetta er það sem allir eru að leita að. Veiðin hefur hins vegar virkilega döpur en engu að síður spennandi tímar framundum, með rigningu og stórstreymi. Ljósmynd/Aðsend

Vikulegar veiðitölur hafa verið birtar á heimasíðu Landssambands veiðifélaga, angling.is. Þar sést hversu illa hefur gengið í laxveiðinni það sem af er sumri. Veiðin er víða einungis brot af því sem ætti að vera á þessum tíma í meðal ári. Sérstaklega á þetta við um þekktu árnar í Borgarfirði, eins og Norðurá, Þverá/Kjarrá og fleiri. Mikið harðlífi má einnig lesa út úr þessum tölum hvað varðar árnar í Húnavatnssýslu, eins og Vatnsdalsá og Víðidalsá. Athygli vekur að Miðfjarðará er komin yfir 200 laxa og þar eru að veiðast um tíu fiskar á dag að meðaltali. Að sögn Rafns Alfreðssonar leigutaka er töluvert mikið af fiski á vatnasvæðinu en takan er dræm og er það að hluta til að kenna hversu staðið og súrefnislítið vatnið er.

Nú eru fyrstu alvöru rigningarnar í veðurspám og framundan er það stórstreymi sem á að gefa mest af göngum. Eftir þann straum mun liggja nokkurn veginn fyrir hvernig sumarið verður.

Einn af hinum svokölluðu gárungum leit yfir veiðitölurnar á angling.is og velti fyrir sér hvort ekki hefði gleymst eitt núll fyrir aftan tölurnar hjá flestum ánum.

mbl.is