Ekki ævintýraleysi í vatnsleysi

Fallegur hundraðkall úr Kolugljúfrum. Lopapeysa skemmir ekki fyrir. Nils lýsir …
Fallegur hundraðkall úr Kolugljúfrum. Lopapeysa skemmir ekki fyrir. Nils lýsir viðureigninni sem miklu ævintýr. Ljósmynd/Aðsend

Þó svo að margir hafi áhyggjur af fiskleysi og kvarti undan vatnsleysi er óhætt að fullyrða að það er ekki ævintýraleysi í veiðinni. Þannig var Hilmar Hansson við veiðar á neðsta svæðinu í Laxá í Aðaldal snemma mánaðar. Hann og Bjarni Brynjólfsson félagi hans áttu svæðið neðan Æðarfossa. Samtals tóku þeir fimm laxa á tveimur tímum. Það voru fjórar hrygnur og „einn virkilega flottur kall,“ eins og Hilmar orðaði það í samtali við Sporðaköst í dag. Hrygnurnar voru á bilinu 81 til 86 sentímetrar. Svo gerðist ævintýri í Miðfossholu. „Ég var að hitcha holuna með litlu Sunray hitch og fiskur tók með látum. Ég svíntók á honum og hleypti honum ekki niður úr holunni. Áttaði mig engan veginn á hvað þetta var stór fiskur. Ef ég hefði fattað það, þá hefði ég sjálfur teymt hann úr holunni og niður á Hyl.“

Hilmar Hansson með laxinn úr Laxá. Þetta er virkilega flottur …
Hilmar Hansson með laxinn úr Laxá. Þetta er virkilega flottur kall, eins og Hilmar lýsir honum sjálfur. Ljósmynd/BB

Það var ekki fyrr en komið var að háfun, sem Bjarni sá um að þeir félagar föttuðu hversu stór þessi fiskur var. „Hann var sléttir hundrað sentímetrar.“ Þegar búið var að taka ummál þá er þessi fiskur 10,3 kíló. Honum var að sjálfsögðu sleppt að lokinni myndatöku.

Hilmar viðurkennir að Laxá hafi komið honum ofurlítið á óvart. Það var líflegt neðan fossa og þeir sáu töluvert af fiski á svæði þrjú sem er brúarsvæðið.

Svipað ævintýri átti sér stað neðan fossa í fyrradag. Þá voru við veiðar Magnús Stephensen og Stefán Viðarsson ásamt fleirum. Þeirra hópur landaði sex fiskum fyrir neðan fossa og vakti athygli þeirra að töluvert varð að ganga af fiski.

Dalsárós, áðan. Rögnvaldur Guðmundsson með 88 sentímetra lax úr Dalsárósi. …
Dalsárós, áðan. Rögnvaldur Guðmundsson með 88 sentímetra lax úr Dalsárósi. Tók hitch. Ljósmynd/EG

Þessi ævintýri voru borin undir Jón Helga Björnsson Laxmýring og sagði hann þau bæði hafa verið afar skemmtileg. „Veiðin er samt þung og við horfum til næstu daga með nokkurri eftirvæntingu þegar smálaxinn á að byrja að skila sér. Þetta er ekki eins og gamla daga þegar menn vildu klára tíu laxa kvótann helst vel fyrir klukkan eitt. Ég man eftir þremur félögum sem fóru saman niður fyrir og tveir kláruðu kvótann vel fyrir hádegi. Sá þriðji náði bara níu og var í miklu þunglyndi yfir því.“

Ævintýri í Víðidal

Nils Folmer Jörgensen lenti í miklu ævintýri í Kolugljúfrum í Víðidal í vikunni. Í fallegu lopapeysunni sinni rölti hann af stað upp fyrir Snaghyl og fann laxa nokkuð ofarlega. Það er ekki auðvelt að brölta upp Kolugljúfur en fyrir kunnuga getur það verið ávísun á veiði. Nils sá nokkra sporða undan hvítfyssi og kastaði á þá. Þeir hurfu eins og dögg fyrir sólu en jafn óvænt birtist einn af heldri sonum Víðidalsár og negldi fluguna. Leikurinn barst niður gljúfrin og svo á nýjan leik upp á sama stað. Þar landaði Nils hundrað sentímetra fiski og það annar fiskurinn sem veiðist í sumar sem brýtur hinn eftirsóknaverða múr.

Langá, fyrir nokkrum mínútum. Erlendur veiðimaður með lax í Langasjó. …
Langá, fyrir nokkrum mínútum. Erlendur veiðimaður með lax í Langasjó. Smálax, 4 punda hrygna. Ljósmynd/Aðsend

Víða aukið líf

Eftir að hafa heyrt í ansi mörgum laxveiðiám í dag greina Sporðaköst ákveðinn samhljóm. Lax er kominn upp fyrir flóð í Vatnsdalsá og fiskur er að aukast á neðsta svæðinu. Afar líflegt var á neðsta svæðinu í Víðidalsá í morgun og hélt það áfram eftir hádegi. Búið var að setja í ellefu laxa á svæðinu og landa sex. Nokkur lax er í Ásunum og sérstaklega er efri hluti árinnar að halda nokkru magni af fiski. Miðfjarðará geymir orðið töluvert magn af fiski og þar bíða menn rigningar svo fiskur hlaupi í tökustuð.

Í Langá var holl að hætta í dag og náði það 25 löxum og annað eins misstist. Það kann að þykja ekki merkileg tala á þessum tíma vertíðar en rétt er að hafa í huga að veiðimenn lönduðu átta löxum þar í morgun, að sögn Karls Lúðvíkssonar staðarhaldara. Það er því óhætt að segja að ævintýrin bíða þeirra sem reyna.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
104 cm Nesveiðar Hugo 29. júní 29.6.
104 cm Nesveiðar Aron Pálmarsson 27. júní 27.6.
107 cm Nesveiðar Hilmar Hafsteinsson 25. júní 25.6.
101,5 cm Laxá í Kjós Guðjón Þ. Guðjónsson 23. júní 23.6.
101 cm Blanda Pétur Pálsson 21. júní 21.6.
101 cm Víðidalsá James Murray 20. júní 20.6.

Skoða meira