Fimmtíu laxar á tveimur dögum

Janusz Kaminski frá S-Afríku með smálax úr Kirkjustreng í Þverá …
Janusz Kaminski frá S-Afríku með smálax úr Kirkjustreng í Þverá í morgun. Samtals var fimmtán löxum landað í Þverá í morgun. Ljósmynd/Aðsend

Grenjandi rigning og stórstreymi er eitthvað sem alla veiðimenn dreymir um. Þetta gerðist á Vestur- og Norðvestur landi í gær og í dag. Langþráð rigning lét loksins sjá sig og hækkaði verulega í mörgum af þeim ám sem hafa átt undir högg að sækja. Sem dæmi var Víðidalsá komin niður í rúma tvo rúmmetra í vatnsrennsli. Eftir rigningar í gær fór áin töluvert upp og sýndi rennslismælir að hún hafði ríflega tvöfaldast og fór rennslið í 4,6 rúmmetra þegar mest var.

Víða á þessu svæði sjá menn aukna laxagengd og hefur veiði verið að glæðast í mörgum ám sem hafa verið þjakaðar af vatnsleysi. Þann er hollið sem nú er að veiðum í Þverá í Borgarfirði komið með þrjátíu og þrjá laxa og er töluvert af fiski nú að sjá bæði í Þverá og Kjarrá. Morgunvaktin í Þverá í morgun gaf fimmtán laxa og er það besta vaktin í Þverá í sumar. Ofar, eða í Kjarrá voru Spánverjar að veiðum og voru þeir komnir með sautján laxa eftir tvo daga. Þannig að saman hafa Þverá og Kjarrá gefið fimmtíu laxa á tveimur dögum.

Okkur er mjög, mjög létt

Ingólfur Ásgeirsson leigutaki Þverár og Kjarrár sagði að mönnum væri mjög létt. „Eftir þessar rigningar núna hækkaði áin um tíu sentímetra og við sáum víða að fiskur fór af stað og fór að ganga. Þetta er líka bara i fyrsta skipti í sumar sem fiskurinn fær eitthvað súrefni,“ sagði Ingólfur í samtali við Sporðaköst.

Allister Kreft með lax úr Þverá í morgun, ásamt leiðsögumanni.
Allister Kreft með lax úr Þverá í morgun, ásamt leiðsögumanni. Ljósmynd/Aðsend

Hann segir ásættanlegt magn af laxi í ánum báðum og gestir þar séu kátir enda hafi þeir ekki búist við miklu. „Okkur er mjög, mjög létt.“

Hlutfall af stórlaxi í Þverá Kjarrá í sumar er um tuttugu prósent og smálaxinn er nú farinn að ganga. Ingólfur segir að yfirleitt sé fiskurinn vel haldinn en sjá megi innan um smálaxa sem bera vitni um að árferði í hafinu hafi verið erfitt. „Við erum bjartsýnir á framhaldið.“

Laxá á Ásum hefur verið að endurheimta töluvert af laxi síðustu daga og hafa göngur verið ágætar eftir hvert flóð. Þannig voru þrjátíu laxar mættir undir þjóðvegsbrúna um hádegi. Síðasta holl í Ásunum skilaði þrjátíu löxum og er það besta holl sem verið hefur í sumar. Áin er komin yfir hundrað laxa.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Blanda Tom Tynan 9. júlí 9.7.
105 cm Blanda Nigel Hawkins 8. júlí 8.7.
104 cm Svalbarðsá Viggó Júlíusson 6. júlí 6.7.
104 cm Nesveiðar Hugo 29. júní 29.6.
104 cm Nesveiðar Aron Pálmarsson 27. júní 27.6.
107 cm Nesveiðar Hilmar Hafsteinsson 25. júní 25.6.
101,5 cm Laxá í Kjós Guðjón Þ. Guðjónsson 23. júní 23.6.

Skoða meira