Dregið úr veiði í Veiðivötnum

9,4 punda urriði úr Skálavatni frá því fyrr í sumar.
9,4 punda urriði úr Skálavatni frá því fyrr í sumar. Bryndís Magnúsdóttir

Samkvæmt upplýsingum frá Veiðifélagi Landamannaafréttar hefur  heldur dregið úr veiðinni í Veiðivötnum eftir frábæra byrjun. 

Fram kemur að í fimmtu viku hafi veiðst 1.695 fiskar, 629 urriðar og 1.066 bleikjur. Það er umtalsvert minni veiði en vikurnar þar á undan. 
 
Fyrsta vikan gaf 4.020 fiska og hefur svo jafnt og þétt dregið úr henni. Önnur vikan gaf 3.638, þriðja vikan 3.114 og fjórða vikan 2.394. 
 
Flestir fiskar í vikunni veiddust í Snjóölduvatni og komu 838 þar á land, en næst á eftir kom Litlisjór með 202 veidda fiska.
Heildarveiðin í sumar er nú komin í 14.861 fisk sem skiptust í 7.104 urriða og 7.757 bleikjur. Hafa flestir fiskar komið á land úr Snjóölduvatni, 4.109, og úr Litlasjó hafa fengist 3.473 fiskar.

Þyngsti fiskurinn er enn sem komið er 13,2 punda urriði sem veiddist í Hraunvötnum í fyrstu vikunni. 
Mesta meðalþyngd er í Ónýtavatni fremra, 3,0 pund, en í Grænavatni er meðalþyngdin 2,6 pund. Einnig er góð meðalþyngd úr Arnarpolli, Hraunvötnum og Litlasjó. Meðalþyngd afla úr vötnunum er 1,3 pund það sem af er sumri.
Sendu ábendingu um frétt
eða myndir á veidi@mbl.is
mbl.is