Dregið úr veiði í Veiðivötnum

9,4 punda urriði úr Skálavatni frá því fyrr í sumar.
9,4 punda urriði úr Skálavatni frá því fyrr í sumar. Bryndís Magnúsdóttir

Samkvæmt upplýsingum frá Veiðifélagi Landamannaafréttar hefur  heldur dregið úr veiðinni í Veiðivötnum eftir frábæra byrjun. 

Fram kemur að í fimmtu viku hafi veiðst 1.695 fiskar, 629 urriðar og 1.066 bleikjur. Það er umtalsvert minni veiði en vikurnar þar á undan. 
 
Fyrsta vikan gaf 4.020 fiska og hefur svo jafnt og þétt dregið úr henni. Önnur vikan gaf 3.638, þriðja vikan 3.114 og fjórða vikan 2.394. 
 
Flestir fiskar í vikunni veiddust í Snjóölduvatni og komu 838 þar á land, en næst á eftir kom Litlisjór með 202 veidda fiska.
Heildarveiðin í sumar er nú komin í 14.861 fisk sem skiptust í 7.104 urriða og 7.757 bleikjur. Hafa flestir fiskar komið á land úr Snjóölduvatni, 4.109, og úr Litlasjó hafa fengist 3.473 fiskar.

Þyngsti fiskurinn er enn sem komið er 13,2 punda urriði sem veiddist í Hraunvötnum í fyrstu vikunni. 
Mesta meðalþyngd er í Ónýtavatni fremra, 3,0 pund, en í Grænavatni er meðalþyngdin 2,6 pund. Einnig er góð meðalþyngd úr Arnarpolli, Hraunvötnum og Litlasjó. Meðalþyngd afla úr vötnunum er 1,3 pund það sem af er sumri.
mbl.is