Nokkrir dagar í „gullinu“

Cezary hoppandi kátur með stórlax sem kom á land í …
Cezary hoppandi kátur með stórlax sem kom á land í Eystri Rangá. Ljósmynd/Aðsend

Cezary Fijalkowski er lesendum Sporðakasta að góðu kunnur. Hann er magnaður veiðimaður og meðal annars þekktur fyrir góð aflabrögð í stórurriðanum í Þingvallavatni þar sem hann stundar veiðar í þjóðgarðinum. Cezary sendi okkur skýrslu eftir annan veiðitúrinn í Eystri Rangá í sumar. Í fyrri túrnum sem hann fór í byrjun júlí landaði hann tíu stórlöxum. Allir á bilinu 85 til 95 sentímetrar. Allir voru þeir teknir á Sunray afbrigði.

„Meginmarkmiðið með þessum ferðum var að prófa nýju tvíhendurnar frá Sage. Stangirnar, Sage X og Igniter með nýjum línum frá Rio og Sage Spectrum Max hjóli. Þarna er mikið og stórt vatnsfall og risafiskar. Algert himnaríki fyrir tvíhenduna,“ sagði Cezary í samtali við Sporðaköst.

Algjör veisla segir Cezary um Eystri ána. Hér er enn …
Algjör veisla segir Cezary um Eystri ána. Hér er enn einum landað. Ljósmynd/Aðsend

Seinni ferðin hans í Eystri Rangá var um síðustu helgi. „Þetta var bara veisla. Áin er full af fiski á bilinu sextíu til hundrað sentímetrar plús og við veiddum ótrúlega vel alla dagana.“

Cezary missti nokkra laxa sem hann segir að hafi verið í flokknum XXL og einnig sá hann fleiri slíka. Flugurnar sem voru að gefa honum best voru Skuggi, lítil rauð Frances með kúluhaus og Sunray afbrigði sem hann kallar Sunray Shadow Eystri.

„Ég var mjög ánægður með stangirnar og fékk allar aðstæður sem maður vill þegar verið er að prófa nýjar græjur. Ef ég ætti að velja mér tvíhendu þá væri það alltaf Sage Igniter. Mögnuð í vindi og í stórum fiski. Ég elska Eystri og það er ekkert betra en að setja í stóran lax í miklu vatni.“

Það sést best í tölum frá Landssambandi veiðifélaga að veisla hefur verið í Eystri Rangá. En síðasta vika skilaði rétt tæplega 500 laxa veiði og ber áin höfuð og herðar yfir aðrar ár á landinu í augnablikinu með ríflega 1100 laxa. Búast má við áframhaldandi fjöri fyrir austan.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
105 cm Blanda Nigel Hawkins 8. júlí 8.7.
104 cm Svalbarðsá Viggó Júlíusson 6. júlí 6.7.
104 cm Nesveiðar Hugo 29. júní 29.6.
104 cm Nesveiðar Aron Pálmarsson 27. júní 27.6.
107 cm Nesveiðar Hilmar Hafsteinsson 25. júní 25.6.
101,5 cm Laxá í Kjós Guðjón Þ. Guðjónsson 23. júní 23.6.
101 cm Blanda Pétur Pálsson 21. júní 21.6.

Skoða meira