Jökla úr leik - farin á yfirfall

Að öllum líkindum hafa síðustu laxarnir verið veiddi í Jökulsá …
Að öllum líkindum hafa síðustu laxarnir verið veiddi í Jökulsá á Dal eða Jöklu eins og hún er kölluð. Mikið tjón segir Þröstur Elliðason leigutaki. Ljósmynd/Aðsend

Ein nýjasta viðbótin í laxveiðinni á Íslandi síðustu ár, Jökla er komin á yfirfall. Hálslón er orðið fullt og þegar það gerist þá byrjar vatn að renna um yfirfall í farveg Jöklu. Þetta gerir það að verkum að laxveiði verður ómöguleg í Jöklu en á móti nýtast hliðarár, eins og Kaldá og Fögruhlíðará.

Þetta er annað árið í röð sem Jökla verður óveiðandi í byrjun ágúst, en samkvæmt meðaltalinu ætti það ekki að gerast fyrr en í byrjun september.

Þröstur Elliðason rekur veiðiþjónustuna Strengi sem er með Jöklu á leigu. Það var ekki gott hljóð í honum í morgun þegar Sporðaköst höfðu samband við hann. „Þetta er alveg ferlegt. Við erum búin að vera með vaxandi veiði og síðustu dagar skiluðu 15 og 25 löxum. Það hefur verið góður gangur í veiðinni og bæði smálax og stór í bland. Ef við hefðum getað veitt út ágúst þá væri Jökla að skila pottþétt um þúsund löxum. Þetta er agalegt. Við erum að fá hópa af útlendingum á næstunni og maður reiknaði bara alls ekki með þessu annað árið í röð,“ sagði Þröstur í morgun.

Hann segir allar líkur á að ekki verði veitt meira í Jöklu sjálfri í sumar. „Ég og veiðifélagið höfum verið í viðræðum við Landsvirkjun og menn eru að leita leiða, en þetta er snúið því að hluti af virkjanaleyfinu er að halda vatnsmagni í Hálslóni eins miklu og hægt er til að koma í veg fyrir mögulegt sandfok.“

Stuðlabergið í Jöklu er tilkomumikið og hefur notið hraðvaxandi vinsælda …
Stuðlabergið í Jöklu er tilkomumikið og hefur notið hraðvaxandi vinsælda ferðamanna. Nú er ásýndin breytt eftir að rennsli Jöklu margfaldaðist. Ljósmynd/Aðsend

Náttúruperla í gljúfrum Jöklu hefur notið vaxandi vinsælda og er það mikið stuðlaberg sem sjá má þegar Jökla er ekki á yfirfalli. Nú breytist ásýnd þess mikið og hafa ferðaþjónustuaðilar miklar áhyggjur, að sögn Þrastar.

Jökla var 21 rúmmetri síðasta veiðidaginn en hefur nú fimmtán faldast og mælist hátt í þrjú hundruð rúmmetrar að sögn Þrastar.

Er þetta mikið tjón fyrir þig?

„Auðvitað er þetta mikið tjón. Menn bóka lítið af veiði eftir að yfirfallið er komið. Þetta veldur alls konar vandræðum og hefur mikil áhrif á markaðssetningu árinnar. Meðaltalið á yfirfallinu hefur verið í byrjun september, þannig að maður reiknaði með að ágúst væri nokkuð öruggur þegar maður var að byrja á þessu. Þetta er afar óvenjulegt.“

Síðast þegar Landssamband veiðifélaga birti vikutölur yfir laxveiðina á vef sínum angling.is var Jökla í 14. sæti á landsvísu með 237 laxa veidda.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
101 cm Selá Jóhann Gunnar Arnarsson 13. ágúst 13.8.
100 cm Selá Kristín Ólafsdóttir 13. ágúst 13.8.
100 cm Víðidalsá Magnús 11. ágúst 11.8.
100 cm Jökla Boggi Tona 7. ágúst 7.8.
102 cm Laxá á Ásum Chis Warne 6. ágúst 6.8.
100 cm Víðidalsá Jón Trausti 5. ágúst 5.8.
100 cm Fnjóská Gunnar Jónsson 2. ágúst 2.8.

Skoða meira