Þurr ágúst á suðvesturhorninu

Uppsöfnuð úrkoma á landinu fram til 15. ágúst. Eins sjá …
Uppsöfnuð úrkoma á landinu fram til 15. ágúst. Eins sjá má á þessari mynd verður rigning á öllu norðanverðu landinu og Austfjörðum. Mun minna á suður og vesturlandi. Ljósmynd/Aðsend

Ekki hefur rignt að gagni á Vesturlandi frá því snemma vors. Sporðaköst leituðu bæði til Veðurstofu Íslands og Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings sem heldur úti spávefnum blika.is. Spurningin var einföld. Hvenær rignir næst vestanlands?

Theodór Freyr Hervarsson varð fyrir svörum á Veðurstofunni. „Ef við erum að horfa á eitthvað sem er meira en rigningarhrafl þá er tíu daga spáin bara upp á norðanátt. Það er aldrei úrkoma að gagni á vestur og suðvesturlandi í norðan átt og í þeim landshluta er hann bara léttskýjaður og þurr. Sú úrkoma sem er í kortunum er ekki að ná suður eða vestur fyrir Holtavörðuheiði, sýnist mér.“

Einar Sveinbjörnsson var á svipuðum nótum. „Hann virðist lagstur í NA-áttir eins langt og séð verður.  Rignir með lægðardragi úr norðri á sunnudag og mánudag norður á Holtavörðuheiði og Arnavatnsheiði, 5-10 mm á að giska. Nær sennilega yfir í Dali. En þurrt hins vegar áfram í Borgarfirði og á Snæfellsnesi og almennt suðvestanlands.“

Báðir eru þeir sammála um að lægðirnar halda sig langt suður af landinu og úrkomuspákort sem Einar sendi okkur sýnir að fram til 15. ágúst er engin eða nánast engin úrkoma suðvestan og vestan til á landinu. Kortið sýnir uppsafnaða úrkomu fram til 15.

Theódór Freyr vildi skyggnast lengra. „Næstu tíu daga er fátt um fína drætti í þessum landshlutum. Ef við skoðum viku í einu þá er áfram þurrt í næstu viku. Þriðja vika sem byrjar þann 19. Þar er útlit fyrir sömu stöðu og við sjáum þurrkamerki á vesturlandi. Sama má segja um fjórðu vikuna. Það er hreinlega ekki að sjá neinar rigningar í þessum landshluta út ágúst.“

Theódór nefnir að auðvitað eru spár svo langt fram í tímann ónákvæmar en ekki er útlit fyrir neina breytingu. En þegar við hörfum á norðurland vestra? „Það getur alveg ræst úr hlutum þar á næstu dögum,“ sagði hann og það má í raun líka lesa út úr spákortinu fyrir uppsafnaða úrkomu.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
105 cm Blanda Nigel Hawkins 8. júlí 8.7.
104 cm Svalbarðsá Viggó Júlíusson 6. júlí 6.7.
104 cm Nesveiðar Hugo 29. júní 29.6.
104 cm Nesveiðar Aron Pálmarsson 27. júní 27.6.
107 cm Nesveiðar Hilmar Hafsteinsson 25. júní 25.6.
101,5 cm Laxá í Kjós Guðjón Þ. Guðjónsson 23. júní 23.6.
101 cm Blanda Pétur Pálsson 21. júní 21.6.

Skoða meira