Lax-á segir upp samningi um Blöndu

Árni Baldursson með lax úr ánni Dee í Skotlandi. Nú …
Árni Baldursson með lax úr ánni Dee í Skotlandi. Nú hefur hann sagt upp samningi um leigu á Blöndu þó að eitt ár rúmt sé eftir af samningnum. Ljósmynd/Aðsend

Lax-á, fyrirtæki Árna Baldurssonar hefur sagt upp samningi um leigu á laxveiði í Blöndu og Svartá. Árni staðfesti þetta í samtali við Sporðaköst, nú í morgun. Uppsögnin tók gildi 1. ágúst. Eitt ár er eftir af samningnum sem gildir til loka veiðitíma á næsta ári, eða 2020.

„Ég tók þá ákvörðun að segja upp samningnum í kjölfarið á þessu hræðilega veiðiári. Ég er alls ekkert að hlaupa í burtu frá þessu og vil endilega halda áfram en með breyttu sniði. Ég myndi vilja nota tækifærið í þessu erfiða árferði og stíga skrefið til fulls í verndun laxastofna á vatnasvæði Blöndu. Gera ána að fluguveiðiá og banna annað agn allt frá sjó og inn á heiðar. Ég myndi vilja taka upp algera sleppiskyldu á stórlaxi og stórminnka kvóta á smálaxinum,“ sagði Árni Baldursson.

Hann vill meina að með þessu væri verið að bjarga efri hluta vatnakerfisins og sleppingar myndu tryggja meiri dreifingu um Blöndu. Enda er ljóst að þeir fiskar sem drepnir eru á svæði eitt, fara ekki ofar. Afar léleg veiði hefur verið á efri svæðum Blöndu og í Svartá í sumar.

„Ég kynnti þessar hugmyndir fyrir veiðifélaginu um leið og ég sagði upp samningnum. Ég hef held að þeir séu bara að melta þetta og vonandi verður niðurstaðan jákvæð því mig langar að halda áfram með ána og sem sölumaður á veiðileyfum, en ég er ekki til í að taka einn alla áhættuna.“

Árni er til í áframhaldandi samstarf um ána en segist …
Árni er til í áframhaldandi samstarf um ána en segist ekki tilbúinn til að taka áhættuna einn. Árni Baldursson

Stjórn veiðifélagsins fundar í næstu viku

Sigurður Ingi Guðmundsson, bóndi á Syðri-Löngumýri er formaður Veiðifélags Blöndu og Svartár. „Já hann sagði upp samningnum. Það er rétt. Hann bauðst til að selja fyrir okkur veiðileyfi ef við vildum selja sjálfir,“ sagði hann í samtali við Sporðaköst.

En hver er þá staðan núna?

„Þetta er nú ekki svo langt liðið og við höfum ekkert fundað þannig að ég get lítið sagt um það. Stjórn veiðifélagsins væntanlega kemur saman í næstu viku. Það stóð alltaf til að bjóða út í lok samnings eða eftir eitt ár. En við eigum eftir að ákveða hvernig við tökum á þessu.“

Kom ykkur þetta á óvart?

„Já og nei. Þetta er hér eins og alls staðar lítil veiði, en maður bjóst nú við að hann héldi út samninginn. Við hefðum haldið hann út. Við eigum eftir að ákveða hvað við gerum en ég á allt eins von á að við bjóðum þá bara út í haust. En það er eftir að kynna þetta fyrir stjórn og á almennum félagsfundi.“

Árni Baldursson segir að auðvitað séu mikil verðmæti fólgin í því að Lax-á hefur markaðssett ána í áratugi bæði innanlands og á heimsvísu og tekist hafi að fylla ána af veiðimönnum. „Ég er tilbúinn að vinna áfram með veiðifélaginu en eftir þetta ár hræðilega ár tel ég eðlilegt að breyta þessu samstarfi.“ Hann ítrekar góð samskipti við heimamenn en jafnframt að hann treysti sér ekki til að taka svona áhættu einn.

„Ég á von á góðu veiðisumri næsta ár. Er bara mjög bjartsýnn á það, en maður veit aldrei. Ástandið núna í kjölfar þessa veiðibrests er mjög skjálfandi og viðkvæmt. Ef kemur gott ár næsta sumar þá er fyllsta ástæða til að Blöndu út. Ég held hins vegar að það væri mjög varasamt að bjóða hana út við þessar aðstæður,“ sagði Árni.

Veiðimenn með lax við Blöndu. Svo getur farið að áin …
Veiðimenn með lax við Blöndu. Svo getur farið að áin verði boðin út í haust. Ári fyrr en ráðgert var. Einar Falur Ingólfsson

Vill færa Lax-á þrjátíu ár aftur í tímann

Ef að veiðifélagið er ekki tilbúið í þetta, þá ertu hættur með Blöndu?

„Já. Það er bara þannig. Hluti af þessari ákvörðun er að mig langar að taka Lax-á þrjátíu ár aftur í tímann. Ég vill vera áfram veiðileyfasölumaður fyrir bændur og aðra leigutaka en vil færa þetta aftur til þess tíma að ég var bara með þetta í bílskúrnum og kaupa bara tímabil út um allt og bjóða mínum viðskiptavinum upp á fjölbreyttan matseðil í laxveiði. Að hluta til er þetta að ég er að minnka við mig og vil gera þetta með öðru sniði. Ég er hættur en ekki hættur. Bara með öðru sniði.“

Árni nefnir að síðasta ár hafi verið erfitt í laxveiði á Íslandi, víða. Svo kemur þetta ár í framhaldinu og þá fyrst taki steininn úr. „Þetta þýðir að það verður erfitt og mikil vinna hjá veiðileyfasölum að selja leyfi fyrir næsta tímabil. Það mun taka á en ég held að við getum það, en enn og aftur er ég ekki tilbúinn að taka áhættuna einn. Þetta er búið að vera hörmungarár. Hjálpi mér allir heilagir. Húff. Menn eru bara hauslausir.“

Mun þessi markaður taka einhverjum stakkaskiptum í haust? Þá er ég aðallega að horfa til samskipta landeigenda og leigutaka?

„Ég held að hann geti ekki annað. Menn eru alveg miður sín. Bæði veiðimenn og leigutakar. Þetta er ekki varan sem leigutakar keyptu og þetta er ekki varan sem veiðimenn keyptu. Þetta er eitthvað allt allt annað. Menn eru að koma heimshorna á milli til Íslands sem á að vera Mekka laxveiðinnar og fara heim með öngulinn í rassinum. Undantekningin er Eystri Rangá og norðausturhornið. Ytri Rangá og Miðfjarðará svona rétt hanga inni, restin af landinu er bara skelfing. Þetta eru fordæmalausar tölur  sem við erum núna að sjá inni á angling.is. Sumar af frægustu ám Íslands hafa ekki enn náð hundrað löxum. Það er ekki hægt að segja að þetta hafi ekki áhrif. Þetta er grafalvarlegt mál. Það þarf bara að segja hlutina eins og þeir eru. Við erum nógu duglegir að láta vita þegar vel gengur.“

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
100 cm Nesveiðar Grétar Þorgeirsson 12. júlí 12.7.
100 cm Blanda Tom Tynan 9. júlí 9.7.
105 cm Blanda Nigel Hawkins 8. júlí 8.7.
104 cm Svalbarðsá Viggó Júlíusson 6. júlí 6.7.
104 cm Nesveiðar Hugo 29. júní 29.6.
104 cm Nesveiðar Aron Pálmarsson 27. júní 27.6.
107 cm Nesveiðar Hilmar Hafsteinsson 25. júní 25.6.

Skoða meira