Stórfiskar á land í Ytri Rangá

Alex með stórlaxinn við Rangárflúðir í morgun.
Alex með stórlaxinn við Rangárflúðir í morgun. Jóhannes Hinriksson

Stærsti lax sumarsins kom á land í Ytri Rangá í morgun og landaði sami veiðimaður að auki risasjóbirtingi á sömu vaktinni.

Það var Axel Wimmer sem setti í stórlaxinn á svokölluðum Rangárflúðum og eftir langa baráttu var 104 cm hæng landað í kvíslinni við hliðina á. Tók sá stóri rauðan Frigga. Fyrr um morguninn hafði Axel landað 90 cm sjóbirtingi í Línustreng sem tók litla Froden túpu.

Þetta er þó ekki stærsti sjóbirtingurinn sem veiðst hefur þar í sumar því þann 12. júlí fékk Einar Falur Ingólfsson ljósmyndari einn 94 cm langan einnig í Línustreng á Sunray túpu.

Fyrir nokkrum árum tóku leigutakar upp sleppiskyldu á sjóbirtingi og hafa menn veitt því athygli að mun meira er nú af stórum birtingum en áður sem ganga aftur og aftur í ána. 

Laxveiðin í Ytri Rangá hefur verið heldur rísandi að undanförnu og eru rúmlega þúsund laxar komnir á land í heildina, en í síðustu viku veiddust þar 217 laxar.  Heildarveiðin hefur oft verið betri í Ytri Rangá og á hún nokkuð langt í að ná nágrönnu sinni í Eystri Rangá sem er komin í nálægt 2500 laxa.

Alex með risabirtinginn við Ytri Rangá.
Alex með risabirtinginn við Ytri Rangá. Jóhannes Hinriksson
Sporðurinn á stórlaxinn.
Sporðurinn á stórlaxinn. Jóhannes Hinriksson
mbl.is