Hnúðlax að nema land á Íslandi

Jón Þór Júlíusson með hnúðlaxahæng sem veiddist í Grímsá í ...
Jón Þór Júlíusson með hnúðlaxahæng sem veiddist í Grímsá í sumar. Nú lítur út fyrir að þessi fiskur hafi numið land á Íslandi. Ljósmynd/ES

Vísindamenn telja allar líkur á að hnúðlax, sem á uppruna sinn í Kyrrahafinu, hafi numið land á Íslandi. Tilkynningar til Hafrannsóknastofnunar um veiði á hnúðlaxi hafa aldrei verið fleiri og eru taldar líkur á að fiskurinn hrygni í nokkru mæli í íslenskum ám um þessar mundir.

Guðni Guðbergsson, sviðstjóri hjá Hafrannsóknastofnun, segir að fram á miðjan þennan áratug hafi tilkynningar um hnúðlaxa verið frá einni og upp í tólf á ári. 2017 fjölgaði þeim verulega og voru yfir sjötíu talsins. Hann hefur ekki staðfesta tölu nú en „fordæmalaus fjöldi“ er orðalagið sem hann hefur um sumarið og þær tilkynningar sem hafa borist stofnuninni. Ekki eru öll kurl komin til grafar í þessum málum og mun ekki gerast fyrr en í haust að farið verður yfir veiðibækur og gögnum safnað betur saman. „Það eru miklar líkur á að hnúðlax sé að ná hér uggafestu og að eftir tvö ár muni verða eitthvað um hnúðlax sem leitar í íslenska heimaá sína,“ sagði Guðni í samtali við Sporðaköst.

Hnúðlax úr Hafralónsá veiddur sumarið 2017. Áður varð mest vart ...
Hnúðlax úr Hafralónsá veiddur sumarið 2017. Áður varð mest vart við þennan fisk á NA-horninu en í sumar hefur hann veiðst um allt land. Sigurður Ólafsson

Orðið vart við hnúðlaxatorfur

Vart hefur orðið við hnúðlaxatorfur í nokkrum ám. Sigurður Már Einarsson, fiskifræðingur hjá Hafró, með aðsetur í Borgarnesi, staðfesti þannig að hann hefði fengið tilkynningu um hnúðlaxatorfu neðarlega í Straumfjarðará í Netahyl. „Ég fékk tölvupóst frá veiðimönnum sem sáu þetta og veiddu hnúðlaxa í þessum hyl. Með fylgdu líka myndir. Þá vitum við að sást til torfu af hnúðlaxi í Hvítá í Borgarfirði við Þingnes. Við fundum árið 2017 úthrygndar hrygnur í tveimur íslenskum ám. Við vissum að allar líkur væru því að sumarið 2019 yrði stórt þegar kemur að hnúðlaxi.“

Lífsferill hnúðlaxins er tvö ár. Seiðin ganga til sjávar mjög lítil og er því von á enn stærra hnúðlaxaári 2021 þegar fullvaxinn „íslenskur“ hnúðlax heldur til heimkynna sinna.

„Það bendir allt til þess að hnúðlaxinn sé að nema hérna land og hrygna. Þá getur þetta bara orðið stærra og stærra,“ sagði Sigurður Már Einarsson fiskifræðingur í samtali við Sporðaköst.

Hnúðlax úr Deildará sem veiddist í sumar. Kryppan á bakin ...
Hnúðlax úr Deildará sem veiddist í sumar. Kryppan á bakin leynir sér ekki á hængnum. Doppur á sporði koma líka upp um hrygnuna sem menn rugla stundum saman við bleikju. Ljósmynd/Aðsend

Breytt skilyrði í Atlantshafi?

Hvaða augum lítið þið þetta?

„Við erum aldrei mjög hrifnir af nýrri tegund sem er að koma inn. Þessi fiskur hrygnir fyrr en laxinn okkar og yfirleitt neðarlega í ánum. Ég tel líklegra að hann sé í samkeppni við silung fremur en lax, en það breytir ekki því að allt tekur sitt.“

Guðni Guðbergsson segir að þetta þurfi að rannsaka betur og varhugavert sé að setja fram kenningar um hvernig á þessari miklu aukningu standi. „Við vitum það ekki og bíðum frekari gagna. Einn möguleiki er að skilyrði í Atlantshafinu hafi breyst með þeim hætti að hnúðlaxinn eigi auðveldar uppdráttar en það er erfitt að fullyrða slíkt.“

mbl.is