Sjóbirtingsveiðin að komast á skrið í Skaftafellssýslu

Ármótin í Geirlandsá í gær þegar byrjað var að lækka ...
Ármótin í Geirlandsá í gær þegar byrjað var að lækka í ánni. svfk

Eldvatn í Meðallandi og Geirlandsá á Síðu eru einhvern þekktustu sjóbirtingssvæði landsins sem gefa hvað best þegar komið er vel fram á sumarið og langt fram á haust, en þar er veitt er til 20. október. Samkvæmt fyrstu fréttum þaðan er veiðin byrjuð að taka við sér.

Samkvæmt upplýsingum frá Stangveiðifélagi Keflavíkur virðist eitthvað verið að lifna yfir veiðinni í Geirlandsá síðustu daganna og telja menn að fyrstu sjóbirtingsgöngur hafi beðið í startholunum niður á söndunum í Skaftá þar til vatnsmagn færi að aukast með haustrigningunum. 

Hópur veiðimanna sem veiddi dagana 23. til 25. ágúst í Geirlandsá náði sex sjóbirtingum land og fjórum löxum að auki. Fremur lítið vatn var í ánni en fiskarnir komu úr Ármótum, Kleifarnefi og Höfðabólshyl.

Fram kom að menn urðu varir við fisk talsvert víða um ána og eitthvað af fiski var greinilega að ganga þrátt fyrir fremur lítið vatn og því til staðfestingar reyndist einn birtingana vera með halalús.

Stærsta fiskinn veiddi Guðrún Guðmundsdóttir í Ármótunum og var 88 cm bústin sjóbirtingshrygna.

Hópur veiðimanna sem tók svo við í Geirlandsá á sunnudaginn fékk fyrstu alvöru rigningarnar á svæðinu og rauk vatnshæðamælirinn sem staðsettur er í Flatarhyl upp um tæpan meter á aðeins sex klukkutímum. Litaðist áin í kjölfarið og varð óveiðandi en áður höfðu menn náð einum 9 punda laxi úr Ármótum og öðrum minni úr Kleifarnefi.

Komust menn ekki upp í gljúfur eða um miðbik árinnar vegna vatnsflaumsins, en náðu þó einum birtingi á land í Kleifarnefi, tveimur í Ármótunum og einum fyrir neðan brú á þjóðveginum. Telja þeir sem þekkja vel til að veiðin í Geirlandsá muni nú taka vel við sér þegar sjatna fer í ánni því líklegt er að sjóbirtingurinn hafi rokið upp af söndunum niður í Skaftaá vatnavöxtunum.

Þá lauk fyrsta hausthollið veiði á sunnudaginn í Eldvatni í Meðallandi og endaði hópurinn með 42 sjóbirtinga og tvo laxa eftir þriggja daga veiði. Helmingur aflans var yfir 70 cm að lengd. Stærstu sjóbirtingarnir voru tveir 85 cm og einn 87 cm. Á síðustu vaktinni kom svo einn 88 cm lax á land.

Erlingur Hannesson með 87 cm birting úr Hvannakeldu í Eldvatni.
Erlingur Hannesson með 87 cm birting úr Hvannakeldu í Eldvatni. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is