Fín veiði í Þverá/Kjarrá

Veiðistaðurinn Sigurhylur (E.P.) í miklu vatni, en hann er mjög ...
Veiðistaðurinn Sigurhylur (E.P.) í miklu vatni, en hann er mjög ofarlega í Kjarrá. Hallgrímur H. Gunnarsson

Eftir að rigna tók verulega á vestanverðu landinu hefur laxveiðin tekið talsverðan kipp og binda menn vonir við að síðustu dagar tímabilsins bjargi þessi veiðisumri eftir einhvert mesta þurrkasumar í manna minnum.

Að sögn Egils Kristinssonar bónda í Örnólfsdal og leiðsögumanns við Þverá/Kjarrá þá hefur veiðin tekið kipp síðustu daga eftir að vatnsmagn óx. Áin hafi þó ekki hlaupið í flóð líkt og í Norðurá sem fór úr tæpum 5 m3/s í um 60 m3/s. Vatnsmagnið óx samt til muna og örlítill „musklitur“ á ánni.

Egill sem staddur var í Kjarrá við leiðsögn sagði að í gærkvöldi hefðu komið 25 laxar á land sem væri langbesti veiðidagur sumarsins og hollið væri komið með 30 laxa á land eftir einn og hálfan dag og útliti bjart.

Mjög líflegt hafi verið og menn hafi verið að reisa mikið af fiskum víðsvegar um ána og margir laxar sloppið áður en náðist að landa þeim.  Greinilegt væri að laxinn væri búinn að dreifa sér betur og lykilveiðistaðir sem ekki hafi verið í virkir í allt sumar væru farnir að gefa og eins og Runki, Grænhylur og Holan. Nokkrir bjartir fiskar hefðu veiðst í gær og stórlaxar frá 80 til 90 cm hefðu komið og þá slapp einn mjög stór eftir langa baráttu í Efra-Rauðabergi.

Að sögn Egils var staðan svipuð niðri í Þverá þar sem fyrsti alvöru dagurinn eftir rigningu gaf 16 laxa og taldi Egill að rúmlega 20 laxar hefði komið þar á land í gær. Veitt er til 9. september í Þverá/Kjarrá.

Sama virðist vera upp á teningnum í Laxá í Dölum þar sem 34 löxum var landað á sex stangir í gær samkvæmt upplýsingum frá leigutaka.

mbl.is