Bara leyfð fluga í Blöndu á næsta ári

Stefán Sigurðsson og Þórarinn Sigþórsson, Tóti tönn, með einn fyrsta …
Stefán Sigurðsson og Þórarinn Sigþórsson, Tóti tönn, með einn fyrsta lax sumarsins í Blöndu fyrir nokkrum árum. Ingi Freyr Ágústsson

Eingöngu verður leyfð fluguveiði í Blöndu á næsta ári. Að sama skapi verður sleppiskylda á öllum fiski yfir 69 sentimetrum og einungis heimillt að drepa einn smálax á vakt á hverja stöng. Þetta var samþykkt á félagsfundi í Veiðifélagi Blöndu og Svartár í gærkvöldi.

Fundurinn var haldinn af því tilefni að Lax-á ehf., félag Árna Baldurssonar, sagði upp leigusamningi um vatnasvæðið í byrjun mánaðar. Eitt ár er eftir af samningnum og ræddu félagsmenn mögulegar leiðir varðandi framhaldið.

Ákveðið var að bjóða ána ekki út heldur ræða við áhugasama, sem að sögn Sigurðar Inga Guðmundssonar, formanns veiðifélagsins, eru nokkrir. „Fundurinn ákvað að veita frest til 2. september fyrir áhugasama til að hafa samband við okkur. Þá sitja allir við sama borð.“

Að sögn Sigurðar Inga bónda á Syðri-Löngumýri eru þrjár leiðir til skoðunar. „Við stefnum að því að semja við áhugasaman aðila útboðslaust. Það eru nokkrir sem hafa áhuga. Fundurinn setti þetta þannig upp að byrja á að reyna að leigja út svæðið, svo er til skoðunar blönduð leið. Það felur í sér að leigja eitthvað og taka áhættuna að selja annað í umboðssölu og ef að það þryti allt að fá þá einhvern til að selja fyrir okkur í umboðssölu,“ sagði Sigurður Ingi í samtali við Sporðaköst.

Hann segir að fundurinn hafi verið samstíga í þessum atriðum.

„Við höfum þegar rætt við nokkra áhugasama en ákváðum að auglýsa þessa dagsetningu þannig að menn hafi frest til að hafa samband við okkur.“ Sigurður segir að stóra málið á fundinum hafi samt verið að breyta veiðireglum. Eingöngu verður nú veitt á flugu í Blöndu frá og með næsta veiðitímabili.

„Við mátum það svo að í þessu fiskleysi þá værum við að fá á okkur nokkurt högg og myndum bara nýta það til að gera breytingar. Þetta gæti hæglega orðið til þess að einhverjar breytingar verði á viðskiptavinahópnum.“

Sigurður segir almenna ánægju hafa verið á fundinum með þessar breytingar á veiðireglum.

mbl.is

Seinustu hundraðkallar sumarsins

Lengd á laxi Veiðisvæði Veiðimaður Dagsetning Dags.
104 cm Nesveiðar Hugo 29. júní 29.6.
104 cm Nesveiðar Aron Pálmarsson 27. júní 27.6.
107 cm Nesveiðar Hilmar Hafsteinsson 25. júní 25.6.
101,5 cm Laxá í Kjós Guðjón Þ. Guðjónsson 23. júní 23.6.
101 cm Blanda Pétur Pálsson 21. júní 21.6.
101 cm Víðidalsá James Murray 20. júní 20.6.

Skoða meira