Vikulegar veiðitölur

Glímt við lax í Fjárhyl í Selá í Vopnafirði í ...
Glímt við lax í Fjárhyl í Selá í Vopnafirði í vikunni. GG

Vikulegur listi Landssambands veiðifélaga yfir laxveiði í ám landsins var birtur seint í gærkvöldi og gildir fyrir vikuna 21. til 28. ágúst. Eins og verið hefur í allt sumar er Eystri-Rangá langefst af ánum þó svo síðasta vika hafi verið heldur róleg sem gæti verið vegna votviðris á Suðurlandi, en hún á það til að bólgna talsvert út og litast í mikilli rigningartíð.

Selá í Vopnafirði er sem fyrr í öðru sæti með hæstu veiði af sjálfbæru laxveiðiánum. Miðfjarðará og Ytri-Rangá eru í næstu sætum og munar talsvert litlu á þeim.

Rigningartíð á Vesturlandi er loksins gengin í garð og virðist það hleypa lífi í veiðina og gæti bjargað sumrinu víða. Í Þverá/Kjarrá hefur komið mikill kippur í veiðina í kjölfarið á auknu vatnsmagni. Þá er myljandi veiði í Laxá í Dölum og stefnir í að fyrsta 100-laxa holl sumarsins þar veiðum í hádeginu, en eftir fimm vaktir í gærkvöldi var hópurinn búinn að landa 93 löxum á sex stangir.

Einnig má sjá að veiðin hefur tekið talsverðan kipp í Langá og Norðurá þó það dugi lítið í að lyfta þeim inn á listann yfir 10 gjöfulustu veiðiárnar. Engin af veiðiánum í 10 efstu sætunum er þó með betri veiði en á sama tíma í fyrra nema Selá í Vopnafirði.

Hér er listinn yfir 10 efstu árnar eins og staðan er þessa vikuna.

  1. Eystri-Rangá 2.652 laxar - vikuveiði 96 laxar (3.344 laxar á sama tíma 2018)
  2. Selá í Vopnafirði 1.300 laxar – vikuveiði 133 laxar ( 1.222 laxar á sama tíma 2018)
  3. Miðfjarðará 1.193 laxar – vikuveiði 102 laxar (2.201 laxar á sama tíma 2018)
  4. Ytri-Rangá 1.184 laxar – vikuveiði 78 laxar (2.774 laxar á sama tíma 2018)
  5. Þverá/Kjarrá 787 lax – vikuveiði 136 laxar (2.369 laxar á sama tíma 2018)
  6. Urriðafoss í Þjórsá 735 laxar – vikuveiði 6 laxar (1.243 á sama tíma 2018)
  7. Laxá á Ásum 617 laxar – vikuveiði 51 laxar (624 laxar á sama tíma 2018)
  8. Blanda 602 lax – vikuveiði 30 laxar  (857 laxar á sama tíma 2018)
  9. Hofsá í Vopnafirði 563 laxar – vikuveiði 60 laxar (602 laxar á sama tíma 2018)
  10. Haffjarðará 530 laxar – vikuveiði 43 laxar (1.435 laxar á sama tíma 2018)

Nánar má kynna sér þennan lista hér.


 

mbl.is